Þórður Snær Júlíusson blaðamaður skrifar afar umhugsunarverða bakþanka á öftustu síðu Viðskiptablaðsins í dag undir yfirskriftinni Ríkið lítur undan:
— — —
„Það er ríkt í landsmönnum að líta til ríkisins eftir lausnum á þeim vandamálum sem við okkur blasa. Ef rýnt er í áherslur þess frá bankahruni virðist þó sem einum hópi hafi verið hjálpað mun meira en öðrum. Sá hópur er fjármagnseigendur
Með loforði ríkisins um að allar innlendar innstæður væru tryggðar gekkst það í ábyrgð fyrir mörg hundruð milljarða króna í eigu stóreignafólks.Eignir voru færðar frá gömlu bönkunum til að mæta þeim og ríkið samþykkti að greiða 184 milljarða til viðbótar.
Samkvæmt lögum var lágmarkstrygging innstæðna um 3,8 milljónir króna. Það er ekki hátt hlutfall Íslendinga sem á hærri innstæður en það. Því skipti loforðið flesta engu máli. Fyrir því eru rök um að nauðsynlegt sé að tryggja innstæður, en þau breyta ekki því hverjir það eru sem hagnast mest á þeirri aðgerð. Annað dæmi er inngrip banka í peningamarkaðssjóði sína. Þar var ákveðið að kaupa út verðlítil skuldabréf fallinna fyrirtækja fyrir tugi milljarða á grundvelli verðmats sem á sér engar stoðir í raunveruleikanum. Sjóðirnir voru markaðssettir þannig að þeir löðuðu til sín allskyns fólk. Stærstur hluti þeirra var þó í eigu stórra fjármagnseigenda.
Nýju bankarnir fengu 44% afslátt af skuldum heimilanna. Haldbær rök sýna að ekki sé hægt að fara í flata niðurfellingu skulda þar sem afskrifa þurfi meira hjá sumum en öðrum. Þeir sem þurfa á mestum afskriftum að halda eru þeir sem keyptu sér dýrustu húsin, sem skuldsettu sig mest og höfðu hæstu greiðslugetuna á mánuði. Þeir sem áttu pening.
Á sama tíma stendur hinn venjulegi íslenski launamaður, sem átti engan sparnað og lifði frá launatékka til launatékka, á hliðarlínunni. Hann er með neikvæða eignarstöðu í húsinu sínu, verðbólgan hefur étið upp virði launa hans, hann horfir á skatta sína hækka og á opinbera þjónustu dragast saman. Hann lítur til ríkisins, sem á móti lítur undan. Það hefur þegar ákveðið hvar það nýtir svigrúm sitt til aðgerða.“