Sjálfstæðismaður sendi þessa grein.
— — —
Sæll Egill,
Vegna umræðu um LÍÚ undanfarna daga þá datt mér í hug að segja þér eftirfarandi sögu.
Þannig er að ég fór á síðasta landsfund okkar sjálfstæðismanna, þar var málefnastarf í fullum gangi og ákvað ég að skella mér fyrir forvitnissakir á fund í sjávarútvegsnefndinni. Hafði heyrt að þar væri oft líflegt og fjörugt, enda margir okkar bestu strigakjafta í útgerð.
Ég kom inn á fundinn sem þá var hann vel byrjaður, fundarstjóri var ef ég man rétt Arnar Sigurmundsson, sem er útgerð og fiskvinnslu allvel kunnugur ásamt og að þekkja lífeyrisjóðakerfið.
Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir var að við langt borð sátu flestar „stór kanónur“ útgerðar og LÍÚ vígalegar á svip, menn eins og Friðrik J Arngrímsson, Eiríkur Tómasson úr Grindavík og fleiri þessháttar þungavigtarmenn.
Út við vegg við lítið borð sátu svo einhverjir menn, einn þeirra stóð upp og bað um orðið, bar upp þá tillögu að Sjálfstæðisflokkurinn tæki nú aðeins tillit til þeirrar óánægju sem væri á meðal almennings vegna framsals og annarra þátta í framkvæmd kvótakerfisins.
Þá stóð langborðið upp og sagði NEI.
Aftur reyndi einhver að leggja til einhverja opnun á umræður í landsfundaályktun varðandi stjórn fiskveiða…
Þá stóð langborðið upp og sagði NEI.
Enn einu sinni stóð einhver upp og lagði til eitthvað í þá átt að Sjálfstæðisflokkurinn skoðaði breytingar á þessu kerfi mismununar og sérhagmuna.
Nú dæsti langborðið og stóð upp og sagði NEI.
Einhver smábátasjómaður bar upp tillögu…
Langborðið stóð upp, glotti og sagði NEI.
Með öðrum orðum, það í raun skipti engu hvort eða hvernig fundarmenn báru upp tillögur um eitt né neitt…..ef þær pössuðu ekki inn í hugarheim LÍÚ og stórútgerðarmanna þá stóð langborðið bara upp og sagði NEI.
Niðurstaða mín af fundinum var einföld, sérhagsmunaaðilar og varðhundar þeirra eru í raun búnir að yfirtaka flokka og stofnanir þeirra.
Menn skildu varast að heimfæra þessa sögu upp á það að Sjálfstæðisflokkurinn sé eitthvert undantekningardæmi og viðmið hagsmunagæslunnar. Staðan er svipuð í öðrum flokkum. Þar eru bara aðrir sérhagsmunahópar að gæta að sínum þröngu sérhagsmunum, en enginn að hugsa um heildarhag þjóðarinnar.
Kannski er þetta eina af ástæðum þess að flokksforysta Sjálfstæðisflokksins taldi ekki ástæðu til framhalds endurreisnar starfs, og var kannski svolítið fegin þegar Davíð kom og hraunaði yfir það starf grasrótar flokksins.
Kannski er þetta ástæða þess að enginn hinna flokkanna hefur tekið til við endurskoðun og endurreisn.
Gæti verið að í flokkunum sitji við langborð samansafn sérhagsmunagæslufólks og gerenda hrunsins og segi NEI?
Getur verið að „við þjóðin“ eigum því miður engan séns, því langborðið standi alltaf upp og segi NEI?