fbpx
Mánudagur 26.maí 2025
Eyjan

Icesave: Hin pólitíska staða

Egill Helgason
Fimmtudaginn 21. janúar 2010 11:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Líklega verður ekkert úr því að náist samstaða með stjórn og stjórnarandstöðu um Icesave. Það hafa verið haldnir nokkrir fundir sem hafa ekki borið neinn árangur – og fundur sem var ráðgerður í gærkvöldi féll beinlínis niður.

Flest bendir því til þess að við stefnum í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars þar sem ríkisstjórnin mun reyna að vinna Icesave 2 fylgis, en stjórnarandstaðan verður á móti. Það verður við ramman reip að draga fyrir stjórnina, í skoðanakönnunum hafa að jafnaði 70 prósent verið á móti Icesave.

Það verður erfitt að breyta því, kannski ekki síst vegna þess að líklegra er að þeir sem eru harðir á móti mæti á kjörstað en þeir sem geta umborið samninginn en eru kannski ekki sérlega áfjáðir í að gera sér sérstaka ferð til að segja já.

Ef samningurinn verður felldur er ekkert annað til ráða en að leita nýrra samninga – eða einfaldlega að segja Bretum og Hollendingum að sækja peningana í gegnum dómstóla. Lögin sem voru samþykkt í sumar taka ekki gildi, flestum ber saman um það.

Ríkisstjórnin hlýtur að búa sig undir þennan möguleika, nema hún ætli einfaldlega að fara frá ef hún tapar atkvæðagreiðslunni.

Það mun reyndar vera talsverður meiningarmunur í stjórnarliðinu um næstu skref í málinu. Jóhanna og Steingrímur eru hörð á því að halda sínu striki, en Össur Skarphéðinsson er veikari fyrir því að kallaður verði til alþjóðlegur sáttasemjari.

Hinn gamli flokksbróðir Össurar, Jón Baldvin Hannibalsson, lagði til að Toomas Hendrik Ilves, forseti Eistlands, yrði fenginn til verksins. Ilves nýtur mikillar virðingar á alþjóðavettvangi – heimildir herma að hann sé tilbúinn að taka að sér verkið ef beiðni kemur frá Íslandi.

En svo má auðvitað vera að Jóhanna og Steingrímur nái að knýja fram sigur í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þá standa þau sjálfsagt með pálmann í höndunum, pólitískt séð – allavega í smátíma. En það gæti líka reynst vera Phyrrosarsigur, ekki síst fyrir Steingrím og VG.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt