Fyrir hrun, en eftir Ólympíuleikana 2008, sat ég í útvarpsþættinum Vikulokin. Þar var meðal annars rætt um frammistöðu íslenska handboltalandsiðsins á leikunum í Peking.
Fyrirfólk hafði farið og fagnað með íslenska liðinu í Kína, forsetinn, Dorritt og Þorgerður Katrín sem þá var menntamálaráðherra.
Þorgerður Katrín gaf tóninn í umræðu um að sigrar handboltaliðsins myndu aldeilis slá á svartsýnina sem þá var farin að breiðast út meðal landsmanna. Að Íslendingar myndu nú standa saman og „taka þetta“.
Ég var fúll á móti og sagði að það hefði ekki raunveruleg áhrif á líðan fólks og þjóðfélagsaðstæður hvernig íþróttaliðum vegnaði. Slíkur fögnuður væri skammvinnur og risti ekki djúpt.
Þetta var í ágúst. Nokkrum vikum síðar hrundi allt klabbið.
Því nefni ég þetta að nú er forsætisráðherrann farin að reyna að teika þennan sama vagn – og taka sér í munn klisjurnar um handboltann.
Fræg eru orð Samuels Johnson: Patriotism is the last refuge of a scoundrel. Föðurlandsást er síðasta athvarf þrjóta.
Hér á Íslandi má kannski segja að það sé handboltalandsliðið?