Þráinn Bertelsson sendi þessa grein.
— — —
Oscar Wilde sagði að sannan vin gæti maður þekkt á því að hann stingi mann í brjóstið.
Nú þegar Ísland þarf svo sannarlega á vinum að halda hafa bræðraþjóðir okkar á Norðurlöndum opinskátt sýnt okkur að þær uppfylla það skilyrði sannrar vináttu að ganga hreint til verks og stinga okkur ekki í bakið heldur brjóstið.
Eftir norrænt samstarf undanfarinna áratuga og óteljandi hástemmdar tækifærisræður um norrænt vinarþel og bræðralag kemur í ljós að fyrir utan þær þjóðir sem við eigum í deilum við, Breta og Hollendinga, hafa öngvir tekið jafn afdráttarlausa afstöðu gegn Íslendingum og Finnar, Danir, Svíar og Norðmenn.
Vonandi lifir eitthvað af hinu norræna vinarþeli og frændrækni þrátt fyrir allt hjá þessum þjóðum í djúpi þjóðarsálar þótt ráðandi stjórnmálaforingjar í þessum löndum telji tryggara að standa með hinum stöndugu Bretum og Hollendingum en litlu frændþjóðinni úti á Íslandi.
Þessi dáðlausa og varkára afstaða norrænna smámenna rifjar upp fyrir manni það sem norrænt stórmenni sagði eitt sinn ekki alls fyrir löngu: “Það er þegar við öll sýnum hámarks varfærni sem við sköpum eins ótryggan heim og hugsast getur.” (“It is when we all play safe that we create a world of utmost insecurity”). Sá hét Dag Hammarskjöld sem þetta sagði.
“Catch 22” – norræna útgáfan!
Það er vissulega aumt til þess að vita að stjórnmálamenn þessara frændþjóða okkar skuli hafa valið sér það hlutskipti að gerast handbendi og handrukkarar Breta og Hollendinga í flóknu deilumáli og hjákátlegast er að heyra hið pólitíska “Catch 22” sem er hin súrrealíska skýring pólitíkusa á undirlægjuhætti sínum.
Sem sé: Auðvitað ætlum við að hjálpa Íslendingum – þegar þeir hafa greitt “skuldir” sínar við Breta og Hollendinga.
Smátt og smátt mun það renna upp fyrir fleirum og fleirum að Íslendingar skulda hvorki Bretum og Hollendingum né alþjóðsamfélaginu nokkurn skapaðan hlut annan en þann að komast að sanngjarnri niðurstöðu í flókinni deilu.
Það er fullur vilji til þess á Íslandi að leysa þetta mál með sanngjörnum hætti, jafnvel með því að íslenska þjóðin taki á sig ásamt með Bretum og Hollendingum að greiða sinn hluta af því tjóni sem eftirlitslaus bankastarfsemi olli í þessum löndum. Sanngjarnast væri auðvitað að þjóðirnar þrjár sem bera ábyrgð á að þetta vandamál varð til og þar með ábyrgð á að leysa það skipti tjóninu jafnt á milli sín þannig að hver þjóð borgi samkvæmt höfðatölu.
Þingkosningar um leið og þjóðaratkvæðagreiðsla
Á þessari stundu er engin leið að segja til um hvaða lausn verður fundin á Icesave-deilunni. Íslendingar standa frammi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Spurt verður á knúsuðu máli hvort þjóðin kæri sig um að staðfesta (vondan og ósanngjarnan) samning við Breta og Hollendinga. Undanskilin verður spurningin um það hvort þjóðin vilji þar með kaupa sér nauðsynlegan frið til að hefja uppbyggingarstarfsemi í þessu landi. Og þaðan af síður verður minnst á þær afleiðingar sem “JÁ” eða “NEI” kunna að hafa í för með sér.
Á þessari stundu benda skoðanakannanir til þess að Icesave-samningnum frá því í desember verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars nk. Þá verða orðnar að engu tvær tilraunir ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrigrænna til að kaupa Íslendingum frið til uppbyggingar.
Í stað þess að eyða dýrmætum tíma í að komast að því hvernig Icesave-samningnum reiðir af í þjóðaratkvæðagreiðslu ætti ríkisstjórnin að nota tækifærið og efna til almennra þingkosninga um leið og þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram. Við þurfum nýja stjórn eða stjórn með endurnýjað, sterkt og ótvírætt umboð til að ljúka þessu máli. Við þurfum að finna lausn og snúa okkur að löngu tímabærri uppbyggingu þjóðfélags sem riðaði til falls vegna afglapa fjárglæframanna og afglapa og afskiptaleysis stjórnvalda. Hvort sú lausn verður sanngjörn eða ekki á eftir að koma í ljós. Það byggist á samstöðu og úthaldi hér innanlands og stuðningi annarra þjóða sem telja það skyldu sína að láta Íslendinga eiga tilkall til réttlætis í þessu máli.
Hvort er skárra: Óréttlátur friður eða réttlátt stríð?
Erasmus frá Rotterdam sagði einhvern tímann á 16. öld: “Vix ulla tam iniqua pax, quin bello vel aequissimo sit potior.” Sem merkir eitthvað á þá leið að varla sé nokkur friður svo óréttlátur að hann sé ekki skárri en hið réttlátasta stríð. Baráttan fyrir réttlæti í Icesave-málinu á eftir að verða okkur Íslendingum kostnaðarsöm.
Viðbrögð bræðraþjóðanna á Norðurlöndum gefa ekki tilefni til bjartsýni um að barátta Íslendinga fyrir sanngjörnum málalyktum í Icesave-málinu muni njóta mikils skilnings á alþjóðlegum vettvangi – hvað þá stuðnings. Að vísu hafa nokkrar þjóðir nú þegar sýnt okkur mikinn velvilja og drengsskap og nægir að nefna Færeyinga og Pólverja. Vonbrigðin vegna framkomu Finna, Svía, Dana og Norðmanna munu seint gleymast. Hvorki frændsemi og sameiginleg saga með Íslandi né áhugi á því að hjálpa smáþjóð til að halda hlut sínum gegn yfirgangi stórþjóða dugði til að kalla fram drengileg viðbrögð hinna norrænu samstarfsþjóða. Þess í stað sýna stjórnir þessara landa aumkunarverðan undirlægjuhátt við Breta og Hollendinga og hina húmanísku stofnun Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
Það leikur enginn vafi á því að lausn muni á endanum finnast á Icesave-málinu. Hitt á eftir að koma í ljós, hvað sú lausn og biðin eftir henni kemur til með að kosta okkur. Kannski verður gæfan með okkur. Kannski ekki. Alla vega er ljóst að bræðraþjóðirnar á Norðurlöndum færast undan þvi að leggja okkur lið þegar við þurfum mest á liðveislu að halda.
Við erum langminnug þjóð, Íslendingar, og þótt okkur eins og fleirum gangi hægt að læra af reynslunni ætti einn lærdómur af Icesave-málinu að vera deginum ljósari. Sem sé, að norræn samvinna hvað okkur varðar er tildur og orðagjálfur að mestu án innihalds.
Svo hefur verið sagt að þjóðríki eigi sér eingöngu hagsmuni en enga vini. Hvort sem það er rétt eða ekki verðum við að endurmeta hagsmuni okkar út frá því að við höfum nú gripið í tómt þar sem við töldum áður að væri liðveislu að hafa og útréttar hendur.
Vestnorrænt samstarf – vestnorrænt ríkjasamband
Hagsmunir okkar liggja augljóslega ekki með þeim Norðurlandaþjóðum sem nú hafa gengið hreint til verks og stungið okkur í brjóstið með því að leggja mótaðilum okkar í Icesave-deilunni lið.
Fleiri smáþjóðir en Íslendingar búa á eyjum sem umluktar eru af Norðuratlantshafinu. Hinar vestnorrænu þjóðir, Færeyingar, Íslendingar og Grænlendingar, eiga sameiginlega hagsmuni sem eru augljósir á þessu hafssvæði, á fiskimiðum og varðandi olíuleit og siglingaleiðir svo að fátt eitt sé nefnt.
Um leið og við endurmetum hið norræna samstarf sem hefur reynst okkur svo haldlítið ættum við að leiða hugann að því hvort ekki beri að stefna að því að þétta samstarf hinna vestnorrænu landa og huga að sameiginlegum hagsmunum í nútíð og framtíð. Vestnorrænt ríkjasamband er hugmynd sem vert er að skoða, ekki síst vegna þess að allir sem hafa augun opin sjá að Íslendingar eru ekki á leið inn í Evrópusambandið á allranæstu árum. Náið samstarf og jafnvel samband með hinum vestnorrænu ríkjum er hagsmunamál sem jafnvel þjóðrembuhópar komast ekki hjá að viðurkenna þrátt fyrir íhaldssemi, einangrunarstefnu og umsáturshugarfar.
Norræn samvinna eins og við höfum skilgreint hana til þessa er hugtak sem vekur núna kuldalegan hlátur á Íslandi en ekki hlýjar tilfinningar en þótt við eigum fáa sameiginlega hagsmuni með Finnum, Svíum, Dönum og Norðmönnum höfum við um margt að spjalla við Færeyinga og Grænlendinga og hugsanlega fleiri sem búa við ysta haf.
Þráinn Bertelsson