Fréttablaðið skýrir frá því í dag að skilanefnd Landsbankans sé að taka yfir Hotel D’Angleterre í Kaupmannahöfn.
Þetta er frægasta hótelið í Höfn. Staðurinn þar sem frægðarfólk gisti. Halldór Laxness var þar – eftir að hann eignaðist peninga. Það gnæfir eins og ævintýrahöll yfir Kóngsins Nýjatorgi.
Ég hef einu sinni gist þarna. Það var í september 2001. Þá var einn frægur maður á hótelinu – Mike Tyson.
Í anddyrinu var skilti með nöfnum frægra sem hafa gist á Angleterre. Þar var Grace Kelly, en enginn Kiljan.
En skilanefnd Landsbankans á ærið verk fyrir höndum ef marka má umsagnir um Angleterre á hinum víðlesna vef Tripadvisor.
Þar kemur fram að þessi gamla drottning hótelanna er í 38da sæti yfir hótel í Kaupmannahöfn. Það virðist hafa misst sinn gamla ljóma því gestir hótelsins sem skrifa á vefinn segja að það þurfi að loka hótelinu til að gera á því miklar endurbætur, pípulögnin sé í ólagi, sum herbergin séu beinlínis léleg, starfsfólkið dónalegt, en prísarnir himinháir – þetta sé þriggja stjörnu hótel á verði fimm stjarna.
Umsagnirnar eru ekki allar svona neikvæðar, en almennt er útkoman hrikaleg fyrir svona sögufrægan stað.