Það líður að prófkjörum hjá stóru flokkunum, til dæmis hjá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki í Reykjavík og Hafnarfirði.
Og það er ágætis mannval á sumum stöðum, kannski ekki mikið um stórtíðindi, en frambærilegt fólk. Maður vonar líka að þetta sé heiðarlegra fólk en forðum og að það eigi betra með að vinna málefnalega.
Hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík er þetta mestanpart sama fólk og síðast að undanskildum Vilhjálmi Þ. Mestar vangaveltur eru um hvernig Gísla Marteini reiði af og hvort Geir Sveinsson handboltakappi á einhvern séns.
En hjá Samfylkingunni vekur mesta athygli framboð útvarpsmannsins Hjálmars Sveinssonar. Hann hefur mikið pælt í skipulagsmálum í þáttum sínum.
Hins vegar ber svo við í þessu árferði að fjölmiðlarnir sýna prófkjörunum sáralítinn áhuga – og það vekur áhyggjur hjá frambjóðendum.
Þeir eiga litla von að komast í fjölmiðlana, nema þá kannski með því að kaupa sig í viðtöl hjá Ingva Hafni.
Kosningabaráttan fer að miklu leyti fram á Facebook.
En það eru aðrir tímar en 2006 þegar fjölmiðlar veltu sér upp úr sveitarstjórnarkosningum og prófkjörum fyrir þær hálfu og heilu árin.
Annars bendir flest til þess að þetta verði eins og áður, að Framsóknarflokkurinn ráði því hverjir ná völdum í Reykjavík. Kosningaúrslitin verða að líkindum þau að hann kemst í oddaaðstöðu?
Ætli hinir flokkarnir séu ekki farnir að reyna að vingast við Einar Skúlason?