fbpx
Þriðjudagur 27.maí 2025
Eyjan

Leitin að samningnum

Egill Helgason
Laugardaginn 16. janúar 2010 13:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Andri Haraldsson er höfundur þessarar greinar.

— — —

Staðan:
Ísland stefnir hraðbyri í pattstöðu sem engin leið er út út.  Nú er allt eins líklegt að samningur íslenska ríkisins við tvö erlend ríki, sem byggist á greiðsluábyrgð sem viðurkennd hefur verið af þremur íslenskum ríkisstjórnum, verði felldur í þjóðaratkvæðisgreiðslu.  Ef marka má skoðanakannanir eru mismunandi ástæður fyrir því að kjósendur vilja neita samningum samþykktar:

1.       Sumir telja að íslendingum beri ekki að greiða neitt, enda sé um einkabanka að ræða.

2.       Sumir telja að íslendingum beri skylda að greiða þann hluta höfuðstólsins sem eignir hrökkva ekki til, en að skilmálar lánsins séu afarkostir sem ekki beri að sætta sig við.

3.       Sumir telja að óvissa sé um málið sem eyða eigi fyrir dómstólum áður en nokkuð lán sé samþykkt.

4.       Sumir telja að óháð því hvort Íslandi beri skylda til að borga, þá hafi landið ekki efni á að borga og að það sé óráðsía að jánkast því að borga ef þjóðin valdi ekki endurgreiðslunum.

5.       Sumir telja að Ísland eigi að vísa öllum erlendum stofnunum (svosem AGS, EES, og ESB) frá, og að landið eigi að freista þess að leita nauðarsamninga við lánardrottna sína.

6.       Sumir geta sætt sig við allt sem í samningnum er, nema það hversu háir vextirnir eru, og að þeir munu falla einungis á ríkisjóð íslendinga en ekki þrotabú Landsbankans.

7.       Íslendingar eru að fá aukinn meðbyr erlendis og skilningur er að aukast á því hversu dýrt þetta er fyrir hvern einstakling á Íslandi.  Við eigum að bíða og sjá hvort að betri samningur geti fengist.

Og eins eru ástæðurnar fyrir því að sumir vilji samþykkja lögin, og þar með samninginn, einnig ýmsar:

1.       Þetta er ekki góður samningur, en ókostir hans eru minni heldur en sú staða að frekari aðstoð frá AGS muni stöðvast vegna þess að þær þjóðir sem hafa lofað aðstoð til okkar draga hana til baka, eða neita að halda áfram eftir þeirri verkáætlun sem fyrir er.

2.       Þetta er ekki góður samningur, en við höfum lítið svigrúm til að semja þar sem mistök í eftirliti á Íslandi sem komu okkur í þessa stöðu.  Þegar litið er til þess að íslensk stjórnvöld hafa gert hluti til að bæta íslenskum innlánshöfum tap sitt, þá getum við ekki komist upp með a borga ekki.

3.       Þetta er ekki kannski ekki góður samningur, en við getum freistað þess að ná rétti okkar síðar og eigum þá hugsanlega rétt á skaðabótum frá ESB.

4.       Þetta er góður samningur, betri en við hefðum getað vonast eftir á frjálsum markaði.  Skrifum uppá og teljumst lánsöm.

5.       Þetta er ekki góður samningur, en ef við lítum út fyrir að virða ekki alþjóðlegar samþykktir þá munum við ekki geta haldið áfram fríverslunarbandalagi við ESB, eða aukið samstarfið þar.

Þessar margvíslegu ástæður gera það næstum ómögulegt að spá fyrir um hvernig kjósendur munu greiða atkvæði.  Bæði er það, eins og margir hafa lýst yfir, að málið er tæknilega flókið og leitar fólk því frekar að huglægu mati en hlutlægu.  Og eins þá liggur fyrir að fáir myndu kjósa yfir sig drápsklyfjar ef einhver glóru má sjá að þess væri ekki þörf.  Liggur því nærri að upplýsingar sem almenningur hefur geta verið mikilvægar í málinu.  En eins líklegt er að lítt ígrundaðar skoðanir byggðar á ónógum skilningi á málavöxtum, og eins orðfæri sem ætlað er að biðla til tilfinninga og stolts landsmanna geta haft mikil áhrif.  Burtséð frá öllu öðru, þá er ljóst að kosningin um samninginn er ófullkomin leið til að mæla hvað býr í hjarta þjóðarinnar, og hvernig best sé að leiða þetta mál til lyktar.

Viðbrögð þingsins:
Nú virðist sem þingheimur allur sé að leita að lausn.  Þetta er mikilvægt, því að stjórnvaldslega verður ekki séð hvernig samið verður um þetta mál, eftir að samningur staðfestur af bæði ríkisstjórn og þingi, og sem hefur að meginefni einnig verið samþykktur af forseta, er felldur af þjóðinni.  Lætur nærri að segja að enginn hafi þá lengur umboð þjóðarinnar að ljúka þessu máli.  Enn verra er, að gagnaðilar munu ekki geta treyst því að lögmætir fulltrúar íslensku þjóðarinnar hafi umboð til þess að samningsbinda þjóðina með nokkrum hætti í þessu máli í framtíðinni án þess að leita samþykkis í þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Raunhæf markmið:
Eftirfarandi hugmyndir um hvernig nálgast megi þetta verkefni þingsins gætu varpað nokkru ljósi á við hverju megi búast.

Í fyrsta lagi er ljóst að gagnaðilarnir hafa hag af því að frá þessu máli sé gengið.  Sú staða sem þjóðin er að koma sér í er engum til góða, og erlendir stjórnmálamenn vilja ekki koma vinaþjóð á vonarvöl.  Á hinn bóginn þá eru gagnaðilarnir einnig fastir í ákveðnu fari: þeir hafa, frá sínum bæjardyrum séð, gengið af heilindum til samninga og þær umleitanir hafa leitt til þess að samningur hefur verið samþykktur á alla vegu og samþykktur af kjörnum fulltrúum.   Komið hefur verið til móts við mikilvæg málefni er snerta alla samningsaðila.  Það er því bretum og hollendingum engan vegin í hag að gefa nokkuð til kynna um áhuga sinn á að taka þetta mál upp aftur.  Eins þá er ekki vænlegt að standa í viðræðum við fólk sem ekki hefur umboð til að semja.

Til að færa mál aftur að samningsborðinu þurfa íslensk stjórnvöld að gera eftirfarandi:

1.       Skipa samninganefnd sem hefur óskorað umboð þingsins til að ganga frá samningum, sem þingið mun samþykkja fyrirvaralaust og án tafar.  Til að þetta sé trútverðugt þurfa forystumenn allra helstu flokkanna að heita þessum stuðningi skriflega og opinberlega.

2.       Samninganefndin þarf að lýsa yfir mjög takmörkuðum og skýrum samningsmarkmiðum sem nefndin óskar að verði endurskoðuð.  Það er enginn vegur að fara í heildstæða endurskoðun núna og gagnaðilarnir eru því ólíklegri að vilja viðræður eftir því sem það er fleira sem á að ræða.

3.       Lýsa yfir aðgerðum og samningsatriðum sem íslendingar hafa tekið á sig sem vott um það að íslendingar meta það mikils að ná samningum skjótt og afgreiða þetta mál.

Til dæmis má gera því skóna að það megin atriði sem stendur í meirihluta þjóðarinnar sé ekki að íslendingar ákveðna ábyrgð, heldur hversu háar fjárhæðir er um að ræða.  Hér er sérstaklega um að ræða þá vexti sem greiðast af höfuðstól lánsins áður en eignir Landsbankans koma til lækkunar hans.

Ef sú prósenta sem nefnd hefur verið (t.d,  að 50-75% heimtist inn á fyrstu 5 árunum, og hugsanlega allt að 90% á árunum þar á eftir), þá er ljóst að það er fyrsta hlutann af þessum samningstíma sem vextirnir eru mest íþyngjandi.  Það væri því skynsamlegt fyrir íslendinga að lofa hollendingum og bretum fulla greiðslu lánsins eftir 5-10 ár, gegn því að vextirnir væru lægri.  Það gefur nægan tíma til að lækka höfuðstólinn, og eins til að finna láninu endurfjármögnun á kjörum sem væru hagstæðari.  Eins myndi það gefa nægan tíma til að leiða málaferli til lykta ef til þeirra kæmi.

Slíkt tilboð er sannarlega einnig gott fyrir gagnaðilana, því að nú er lánstíminn styttri og endurgreiðsla þess öll tryggð fyrr.  Eins er það í hag fyrir bæði Bretland og Hollandi að vinna með Íslandi til að ná fram lausn á þessu máli sem ekki skaðar hagsmuni nokkurs lands.

Til að sýna að íslendingar taka skyldur sínar alvarlega, þá þurfa íslensk stjórnvöld samhliða þessu að óska eftir samvinnu með saksóknurum á norðulöndunum, í bretlandi og í hollandi að rannsaka mál til hlítar.  Bjóða þarf aðstöðu, túlka, og hverja aðra hjálp sem íslensk stjórnvöld geta veitt til að leiða til saka þá sem hafa með vítaverðum hætti stefnt hag sparifjáreigenda í mörgum löndum Evrópu í hættu, og samtímis einnig stefnt hag Íslands í hættu.  Ekki væri úr vegi heldur að lýsa því yfir að alþingi myndi setja lög sem lengdu fyrningarfrest allra brota er tengjast hruninu um 2-3 ár, svo unnt verði að vinna þessi mál án þess að þau renni í sandinn.

Með því að gera öll samningsmarkmið íslensku samninganefndarinnar opinber, og með því að leita af hreinskilni eftir sanngjarnri lausn, þá eykst einnig sá pólitíski þrýstungur að íslendingar séu að leita sanngjarnrar lausnar á málinu.

Það er engan vegin víst að umleitanir eins og þessar yrðu til nokkurs.  En víst er að það þarf að láta á það reyna.  Besti vilji og hreinskilin verk íslenska þingsins eru það eina sem þjóðin á eftir til að leysa þetta mál.  Ef unnið er af heilindum, með virðingu fyrir gagnaðilunum, og auðmýkt fyrir því að í landinu okkar voru gerð mistök, þá geta íslendingar vænst þess að slíkt verði virt af hollendingum og bretum.

Andri Haraldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þungt högg fyrir Demókrata

Þungt högg fyrir Demókrata
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Að fatta fattið

Steinunn Ólína skrifar: Að fatta fattið
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Brimlaus andstaða

Þorsteinn Pálsson skrifar: Brimlaus andstaða
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Við borðið eða á ganginum?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Við borðið eða á ganginum?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Borgarfulltrúi vill fjarlægja steypuklumpana í miðbænum – „Lýsandi fyrir stefnu sem þrengir að líflegu borgarumhverfi“ 

Borgarfulltrúi vill fjarlægja steypuklumpana í miðbænum – „Lýsandi fyrir stefnu sem þrengir að líflegu borgarumhverfi“ 
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Vindhögg í beinni hjá sægreifum og RÚV

Orðið á götunni: Vindhögg í beinni hjá sægreifum og RÚV