Þetta eru ótrúlegar fjárhæðir sem um er að tefla í gjaldeyrissvikum sem verið er að rannsaka. 57,5 milljarðar króna og á sennilega eftir að hækka umtalsvert.
Maður fer að verða úrkula vonar um að íslenska krónan nái að hækka. Og reyndar skilst manni að Flanagan, útsendari Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, hafi sagt á fundi að þess væri ekki sérstaklega að vænta næsta áratuginn.
Við þurfum að vita hverjir það eru sem standa í þessu gjaldeyrisbraski og hvernig. Þetta er dýrkeypt fyrir íslenskan almenning.
Í annarri frétt í Fréttablaðinu kemur í ljós að verð krónunnar á erlendum markaði hefur aftur farið lækkandi. Um tíma var stefnt að því að láta gengi krónunnar hér og á svokölluðum aflandsmarkaði mætast, en það hefur greinilega mistekist. Í fréttinni var evran verðlögð á 261 krónur erlendis (hér er hún sirka 183) – sem þýðir að hún er nánast verðlaus.