Þessa dagana er í erlendum fjölmiðlum mikið fjallað um áratuginn sem á ensku er farið að kalla the noughties.
Það er átt við fyrsta áratug aldarinnar, „núlláratuginn“, þann sem er að líða. (Nú munu sjálfsagt einhverjir benda á að hann klárist ekki fyrr en í lok næsta árs…)
Newsweek sló því upp að þetta væri áratugur frá helvíti. Með styrjöldum, hryðjuverkum og kreppu.
Hjá okkur Íslendingum hefur hann verið feikilega viðburðaríkur, með Decode, Baugsmáli, Kárahnjúkum, brottför bandaríska hersins, útrás, hruni og kreppu.
Og svo hefur þetta verið áratugur fyrirbæra eins og Britney, Beckham, raunveruleikasjónvarps, George Bush, gróðurhúsaáhrifa – já, og bloggsins.
Hér á Íslandi hafa verið hlýindi, og það má þakka fyrir að ekki margir hafa beinlínis farist.