Lesandi sendi þetta bréf um lánamál:
— — —
Sæll Egill
Vil þakka þér fyrir góða þætti.
Mig langar til að fá umfjöllun um hvernig stendur á því að bankarnir geti alltaf lagt á hvaða álögur sem er, að mér sýnist. Hér á ég við vexti á vexti ofan. Almenningur er nokkuð bjargalaus gagnvart þessu. Mig langar til að taka dæmi af ungum manni sem keypti sér sendibíl árið 2007. Bílinn er á fjármögununarleigu. Upphaflega var gefið upp að borga ætti 47.115 á mán auk vsk.
Kaupverðið var 2.959.840, innborgun 591.968 og eftirstöðvar 2.367.872 sem sett var á fjármögnunarleigu til 5 ára (60 afborgarnir). Nú hefur verið greitt allt í allt 25 afborganir og samtals með fyrrgreindri innborgun 2.127.795 auk vsk. Í nóvember er mánaðarafborgunin 127.941, en eftirstöðvar af láninu er 2.972.320. Þar sem hann hefur ekki getað greitt af láninu síðan í vor liggur nú í innheimtu hjá lögfræðingi 948.166 kr.
Sem sagt um 4 milljónir eftirstöðvar. Eftir að hafa greitt rúmar 2 milljónir. Það þarf ansi mikil laun til að geta lagt 2 milljónir til hliðar, líklega um 4 milljónir. Nú til að greiða þessar 4 milljónir þarf líklega 8 milljónir í laun eftir skatt. Að minnsta kosti 2 ára vinna hjá meðalsérfræðingi og þá ekki annað til aflögu.
Nú varðandi þennan bíl þá dróst saman keyrsla þannig að hann hætti akstrinum sl. Vor. Því eru atvinnuleysisbæturnar til að lifa af um 100 þúsund á mánuði. Framtíðin er ekki björt því líklegast verður hann gjaldþrota, mér skilst að kreditinfo hundelti fólk í 10 ár og hægt sé að framlengja skuldafangelsið. Þetta er ekki mjög björt framtíð hjá 30 ára manni.
Varðandi bankana þá langar mig líka til að benda á að þrátt fyrir að flest allir landsmenn eru farnir að greiða um hver mánaðarmót í gegnum heimabanka og sinna flestum viðskiptum sínum þannig þá hafa ýmsar álögur lagst á okkur. Mér dettur í hug þessar 250 eða 300 kr sem komnir eru á alla gíróseðla en enginn mótmælti.
Einn lögfræðingur spurði mig hvort ég hefði ekki einhvern sem þekkti vel til þessara mála til að tala mínu máli. Ég sagði svo ekki vera. Klóra mér enn í hausnum yfir valkostunum sem heita „greiðsluaðlögun samningskrafna“ – „nauðasamningur“ „árangurslaust fjárnám“ Þetta er einfaldlega ekki í lagi og þessar útreikningskúnstir eru með eindæmum. Hvað teljast til dæmis vera okurlán. Þegar ég var lítil var mér sagt að slíkt væri ólöglegt. Núna virðist allt vera hægt. Þeir setja okkur kannski öll (landsmenn) í skuldafangelsi því það eru engar forsendur til að standa undir þessu.
Ég held sem sagt að þessar útreikningskúnstir bankanna séu komnar langt fram yfir öll velsæmismörk – þær voru það fyrir hrun – ekki batnar þetta. Hver segir t.d. að ef ég skulda einhverjum um eina milljón (sbr hér að ofan) að ég þurfi að greiða 4 milljónir fyrir. Fyrir greiðandann þá er þetta launavinna þar sem leggja þarf til hliðar 6 milljónir fyrir bil sem kostaði 3. Er slíkt eðlilegt? Ég bara spyr.