Nú er það svo að fólk á almennt að þurfa að fara eftir lögunum. Hvort sem það brýtur af sér í umferðinni, stelur, svíkur undan skatti eða beitir ofbeldi. Um þetta er rík sátt í samfélaginu. Sem betur fer, annars ríkti glundroði.
En þegar rannsaka á svokölluð hvítflibbabrot upphefst ógurlegt væl.
Þá er talað um að réttarkerfið sjálft sé í hættu, nornaveiðar og grimmd. Ástæðan er aðallega sú að þá er reynt að koma lögum yfir manntegund sem er ekki venja að sæti refsingu eða fari í fangelsi.
Góðborgara. Menn sem hafa gengið í sömu skóla og lögmennirnir sem verja þá. Eru í sömu stjórnmálaflokkum og þeir. Menn sem eiga peninga og búa í fínum hverfum.
Þess vegna rennur lögmönnunum til rifja ómennskan – þeir geta nefnilega séð sjálfa sig í sakborningunum. Um það er ekki að ræða þegar eiga í hlut venjulegir krimmar.
Þetta gæti jafnvel náð til dómaranna sjálfra. Þeir voru líka í sömu skólum – og jafnvel í sömu stjórnmálaflokkum.