Við höfum búið við það undanfarinn áratug að kosningabarátta fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík hefur byrjað fáránlega snemma. Það hefur verið fjallað um það mánuðum saman hvort einhver fimm prósenta maður eigi séns á að komast inn í borgarstjórn.
Svona verður þetta varla í ár, maður á von á stuttri og kannski ekkert sérlega snarpri baráttu fyrir kosningarnar sem verða í maí næstkomandi.
Flest fólk – og þar með taldir fjölmiðlarnir – hafa einfaldlega um annað að hugsa. Fólk skynjar líka að það er ekki svo mikill munur á því hver stjórnar borginni; flokkapólitíkin kemur þessu ekki sérlega mikið við.
Sjálfstæðisflokkurinn býr sig nú undir prófkjör í borginni. Hanna Birna Kristjánsdóttir er sjálfkjörin sem oddviti listans, eins og staðan er getur hún jafnvel látið sig dreyma um að verða formaður flokksins í fyllingu tímans. Það mun þá jafnvel gleymast að hún var nánin samstarfskona Kjartans Gunnarssonar í langan tíma.
Það er svo nokkuð litrík hersing sem ætlar að berjast um annað sætið: Gísli Marteinn Baldursson, Júlíus Vífill Ingvarsson og Geir Sveinsson. Gísli Marteinn hefur menntað sig í borgarfræðum síðan í síðustu kosningum, hefur ýmsar athyglisverðar hugmyndir um borgarmál, en hefur um leið mátt sæta illu og sumpart ómaklegu umtali vegna námsdvalar sinnar erlendis.
Júlíus Vífill nýtur stuðnings armsins í kringum Guðlaug Þór Þórðarson. Hann fer ekki dult með kratískar áherslur sínar þegar hann leggur áherslu á velferðarmál í uppleggi sínu. Geir Sveinsson er algjörlega óreyndur í pólitík, en hann er tengdasonur Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og fjarskalega vinsæll íþóttamaður. Faðir hans, Sveinn Björnsson, var reyndar varaborgarfulltrúi fyrir flokkinn á sínum tíma.
Svo má ekki gleyma Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur – sem gæti jafnvel skotið körlunum á bak við sig og hirt annað sætið.
Dagur B. Eggertsson, sem örugglega mun leiða lista Samfylkingarinnar, taldi sig eiga stóran sigur vísan fyrir nokkrum misserum, þegar traust á borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna var í algjöru lágmarki – eftir að þeir höfðu leikið þann ljóta leik að dubba Ólaf F. Magnússon upp sem borgarstjóra en svíkja hann svo nokkru síðar.
Þetta hefur breyst mikið, Hanna Birna hefur reynst vera nokkuð traustur og farsæll borgarstjóri, og á sama tíma situr Samfylkingin í ríkisstjórn sem verður sífellt óvinsælli. Dagur er varaformaður Samfylkingarinnar, það gleymist varla þótt hann hafi passað sig vandlega á að óhreinkað sig ekki mikið tiltektinni eða uppgjörinu eftir það.
En það hefur ýmislegt breyst síðustu árin. Það hefur verið óskaplegt kappsmál fyrir stjórnmálaflokkana að vinna Reykjavík. Hún var lengi dýrasta djásnið í krúnu Sjálfstæðisflokksins – þá var gæðum borgarinnar útdeilt innan flokks. En kjósendur upplifa þetta ekki svona lengur. Eftir átökin í borgarstjórninni undanfarin ár hefur ljóminn dálítið farið af þessu. Það hafa verið ör skipti á borgarstjórum – þetta er ekki eins fínt og þetta var einu sinni.
Hvað munu menn svo takast á um í borgarstjórnarkosnngum. Líklega munu allir meira eða minna hafa sömu stefnuna, þannig var það síðast. Kannski verður deilt um Orkuveituna – það er löng sorgarsaga hversu illa henni hefur verið stjórnað – Oddný Sturludóttir spyr í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag hvort borgarfulltrúar eigi yfirleitt að sitja í stjórnum fyrirtækja borgarinnar?