Einu sinni voru sagðar sögur af íslenskum athafnamanni sem brá sér stundum á Sögu eins og þótti fínt í þá daga. Þar drakk hann og gladdist, mesta skemmtun hans var að skrifa undir ávísanir sem hann borgaði veitingarnar með. Þar ritaði hann nöfn eins og Andrés Önd, Mikki Mús eða Adolf Hitler.
Mánudaginn eftir var þessu kippt í liðinn. Maðurinn skrifaði ávísun með réttri undirskrift, en ávísanirnar með skrítnu nöfnunum voru látnar hverfa. Málinu var reddað.
Hópur fólks sem kallar sig Indefence hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun til að mótmæla ríkisábygð vegna Icesave. Allt gott um það að segja, en það hafa verið einhver brögð að því að fólk skrifi röng nöfn á listann.
Þetta er varla neitt nýtt – ég get ekki ímyndað mér að nokkurn tíma hafi verið haldin sú undiskriftasöfnun að einhver skrifi ekki Mikki Mús, Hitler eða Fjalla-Eyvindur.
Og eftir því sem fleiri taka þátt, þá aukast líkurnar á slíku athæfi.
Þetta liggur einfaldlega í eðli hlutarins – og þess vegna er farið yfir svona lista til að athuga hvort þeir stemmi til dæmis við þjóðskrá.
Einhverjir sem hafa skrifað röng nöfn á listann reynast hafa aðgang að tölvukerfum RÚV og Stjórnarráðsins. Við vitum ekki hvort þetta sé mikill fjöldi eða kannski bara einn eða tveir – hjá báðum þessum aðilum starfar mikill fjöldi fólks.
En sumir telja þetta svo alvarlegt mál að þeir álíta að þeir telja ástæðu til efna til opinberrar lögreglurannsóknar. Það er þá væntanlega ríkislögreglustjóri sem á að taka að sér þetta mál.
Það verður þá ákveðin tilbreyting frá því sem var í söfnun Varins lands hér um árið. Þá voru þeir rannsakaðir sem vildu ekki skrifa undir.