Íslensku bókmenntaverðlaunin hafa aldrei náð að festa sig í sessi sem þau þungavigt sem þau gætu orðið. Ég kann ekki skýringuna, en verðlaun með svona stórt nafn ættu í raun að vera meira spennandi.
Um daginn var haldin vefkosning þar sem voru valdar verðlaunabækur verðlaunabókanna, þær bækur sem þátttakendum í kosningunni þóttu skara fram úr.
Andri Snær Magnason vann í báðum flokkum. Sagan af bláa hnettinum í flokki fagurbókmennta og Draumalandið í flokki fræðibóka.
Hérna má finna lista yfir verðlaunahafana frá upphafi. Stefán Hörður Grímsson fékk verðlaunin fyrst. Svo Fríða Á. Sigurðardóttir, Guðbergur Bergsson og Þorsteinn frá Hamri. Guðbergur hefur fengið þau tvisvar, fyrir Svaninn og Föður, móður og dulmagn bernskunnar.
Í fræðibókaflokknum getur Guðjón Friðriksson nánast talist áskrifandi. Hann hefur fengið verðlaunin þrisvar, fyrst fyrir Reykjavíkursögu sína, svo fyrir ævisögu Einars Benediktssonar og loks fyrir rit sitt um Jón Sigurðsson.
Þetta er forvitnilegur listi og rifjar upp ýmis verk sem maður man ekki endilega eftir. Hvað segja lesendur síðunnar, hverjar eru bestu bækurnar á tíma þessara verðlauna?