Fjölskylda mín spurði mig hvers vegna mér hefði ekki verið boðið að vera með í þættinum sem hér á heimilinu kallast Vippát.
Ég hef reyndar aldrei séð þennan þátt, hvorki íslensku né útlendu útgáfuna.
Svo sat ég við tölvuna og heyrði álengdar talið í þættinum.
Heyrðist að meðal keppenda væru Heiðar snyrtir og Franklín Steiner.
Hugsaði með mér: Ég hefði þá alveg getað tekið þátt.
Svo var ég leiðréttur og sagt að þetta væru einhverjir allt aðrir menn.
Ég varð fimmtugur um daginn og hef elst hratt síðan þá. Tíminn líður einkennilega og ég er hálf ringlaður.
Um daginn mætti ég í vinnuna að morgni, rakst á mína góðu samstarfskonu Ragnhildi Steinunni, en kallaði hana Ragnheiði Guðfinnu.
Ég bað hana margfaldlega afsökunar, en ég held ekki að hún fyrirgefi mér nokkurn tíma.