Hér í athugasemdakerfinu var vitnað í grein sem meistari Guðbergur Bergsson skrifaði í DV fyrir nokkrum árum, ég hef ekki nákvæma dagsetningu, en þessi orð eiga fjarska vel við á tíma skuldaánauðar:
— — —
Skulduga kynslóðin
Innan skamms mun erfa landið kynslóð sem óhætt er að kalla skuldugu kynslóðina. Það að vera skuldug upp fyrir haus einkennir hana.
Skuldafenið er þess eðlis að fram hefur komið ný aðferð við að kúga, með lánatáli. Ungt fólk er ekki átthagabundið eins og forfeður þess heldur er það í bankafjötrum.
Þægilegi glæpurinn gegn því er svo ógurlegur að mann furðar að það skuli ekki hafa risið upp. Staða skuldugu kynslóðarinnar er svipuð og var hjá tötaöreigum nítjándu aldar, hún er vonlaus.
Ungt fólk getur ekki hreyft sig, annars mundi það missa restina af sjálfu sér. Oftast er hún hæfileikinn til að tóra og kynlífið sem engin stjórnvöld geta tekið af fólki.
En við hverju tekur kynslóðin? Grenjandi ellibelgjum sem voru eitt sinn ungir, neyslufrekir, auglýsingatrúar, sem hritu lítt um afkvæmin, kölluðu það frelsi, og öttu þeim út í skuldafenið.
Ekki nóg með það. Ættjörðin verður undirlögð af amerískum álverum, arftökum hersins, og landið að mestu eins og það var forðum, úr alfaraleið með þjóð sem kemst varla út fyrir landsteinana vegna féleysis nema kannski í vikufrí til Kanarí. Það var þá líka staðurinn!