Það fjarar hratt undan stjórnmálaforingjum í kreppuástandi. Við eigum eftir að sannreyna það þegar David Cameron tekur við stjórnartaumunum í Bretlandi eftir hálft ár. Og það er líka spurning hvernig fer fyrir Barak Obama.
Það er ekki öllum gefið að vera sannir leiðtogar á svona tímum – skínandi dæmi höfum við reyndar í Franklin D. Roosevelt, forseta Bandaríkjanna.
Hér á Íslandi hefur Jóhanna Sigurðardóttir glatað miklu af trausti sínu og vinsældum síðasta árið. Samt var hún útnefnd kona ársins hjá Nýju lífi – það er kannski eðlilegt, hún er fyrsti kvenkyns forsætisráðherra Íslands.
En það hefði alveg eins mátt velja Evu Joly sem mun kannski á ýmsan hátt reynast mikilvægari en Jóhanna.
Það er rétt sem Jónas Kristjánsson segir. Steingrímur J. Sigfússon er brunaliðsmaðurinn í ríkisstjórninni. Hann fer svo víða að hann getur varla haft tíma til að hugsa. Flestir aðrir ráðherrar í ríkisstjórninn eru eins og statistar.
Það er líka ljóst að sumir þeirra eiga ekkert erindi í sín háu embætti, hafa bara komist þangað vegna þess að þeir voru í næstir í goggunarröðinni. Þekking þeirra á málaflokkunum er svo lítil að sumir eiga í mestu brösum með að ræða þá þannig að mark sé á tekið.
Ekki hefur meira breyst í íslenskum stjórnmálum en svo. Eða réttar sagt: Það hefur ekkert breyst, nema flokkarnir eru kannski ekki jafn opnir fyrir óhreinu fé og áður.
Þegar ég var í Kaliforníu um daginn fór ég í Universal Studios. Þar eru varðveitt leiktjöldin úr kvikmyndinni Psycho. Norman Bates hét ungur maður sem rak mótel við þjóðveg, í húsi á hæð fyrir ofan varðveitti hann mömmu sína.
Ég velti svolítið fyrir mér þennan dag hvort hægt væri að nota þetta sem allegóríu um ríkisstjórnina, forsætisráðherrann og aðstoðarmenn hennar.