Lesandi síðunnar í Skandinavíu sendi þennan pistil.
— — —
Sæll Egill,
ég má til með að bæta við reynslusögum frá Evrópu.
Í fyrirlestraferð um fjármálahverfi London í síðasta mánuði sat ég til borðs með fulltrúum lífeyrissjóða sem höfðu verið í heimsókn á Íslandi nú í haust, og fengið þar sérstakan fyrirlestur frá Geir Haarde, held það sé óhætt að segja að ólíklegt sé að af fjárfestingum þeirra verði.
Ég hlustaði á Paul Krugman halda erindi í Gautaborg fyrir nokkrum vikum, þar sem hann mælti fyrir mikilvægi aukinnar lántöku ríkja til að ná sér út úr kreppunni með auknum fjárfestingum. Hann taldi skuldsetninguna ekki hafa nein neikvæð áhrif, nema kanski fyrir „credibility“ lítilla landa með lélegt bankakerfi og miklar skuldir eins og Írland – „and you don’t even want to think about Iceland“ bætti hann við og salurinn hló góðlátlega.
Á hádegisfundi í Stokkhólmi í síðustu viku með mjög virtum fjárfestingarráðgjafa kom það skýrt fram að seinagangur umbótanna er að festa vel í sessi það álit að Ísland hafa verið þvottastöð peninga frá Rússlandi.
Orðspor landsins skaðaðist mun minna strax eftir hrunið heldur en ég upphaflega óttaðist. Norðurlandabúar hafa almennt mikla trú á Íslendingum sem duglegri þjóð sem geti náð sér út úr efnahagsvandræðunum hratt og örugglega.
Hins vegar hefur orðspor landsins skaðast mun meira núna síðustu mánuðina, sérstaklega vegna Icesave tafanna.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi tvær fréttafyrirsagnir: „Lettland aftur samkeppnishæft land“ og „Landsframleiðsla Íslands nær nýjum botni“ en þessar greinar birtust nú í vikunni í sænska viðskiptablaðinu sem hefur rúmlega 400 þúsund lesendur.
Seinni greinin endar svona: „Íslenska þingið hefur enn ekki samþykkt lagabreytingu um hvernig ríkið skuli endurgreiða Hollandi og Bretlandi útgjöld vegna innistæðutrygginga sem þessi tvö lönd tóku á sig vegna taps þúsunda sparifjáreigenda í hruni íslenska bankakerfisins fyrir rúmu ári“.
Útlendingar eru ekki að leika Íslendinga grátt, heldur var því þver öfugt farið, íslenskir bankar sviku útlendingana. Hrunið var ekki útlendingum að kenna – það er mikilvægt að horfast heiðarlega í augu við þá staðreynd.
Hinu stórskemmda orðspori landsins verður ekki reddað snögglega, hins vegar getur það vaxið að nýju en ekki á meðan Icesave lausnin er tafin.
Með kveðju úr hinum nýju byggðum Austur-Íslendinga í Skandinavíu.