Það er stór áfangi fyrir Evrópusambandið að Lissabon sáttmálinn skuli loks taka gildi, eftir að hafa áður verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi, eftir hik Klaus Tékklandsforseta – og eftir að David Cameron heyktist á því að stefna honum í þjóðaratkvæðagreiðslu á Bretlandi.
Í Lissabonsáttmálanum felst endurskipulagning á stjórnkerfi ESB sem birtist fyrst og fremst í því að nú hefur sambandið fengið forseta og nokkurs konar utanríkisráðherra, en einnig er stefnt að því að Evrópuþingið fái aukin völd og að þjóðþing aðildarríkjanna hafi meiri áhrif á lagasetningu innan ESB en áður. Markmiðið er, í orði kveðnu, að gera ESB lýðræðislegra og skilvirkara. Mannréttindasáttmáli ESB öðlast einnig lagalegt gildi – Bretar, Pólverjar og Tékkar hafa raunar fengið undanþágu við hluta hans.
Frakkar höfðu sagt nei við því að stækkunarferli ESB gæti haldið áfram fyrr en sáttmálinn hefði verið samþykktur. Þeir, og fleiri, hafa talið að nauðsynlegt væri að gera þessar stjórnkerfisbreytingar þegar aðildarríkjunum hefur fjölgað svo mjög. Nú getur stækkunarferlið hafist aftur – líklega verður Króatía næsta ríkið til að ganga í sambandið. Fleiri þjóðir á Balkanskaga bíða svo – fyrir utan Ísland…