Meðal gesta í Kiljunni í kvöld er öldungurinn, skólamaðurinn og sagnaþulurinn Jón Böðvarsson. Guðrún Guðlaugsdóttir hefur skráð ævi Jóns, sem líklega er þekktastur fyrir hin vinsælu námskeið um Njálu sem þúsundir Íslendinga hafa sótt. Jón segir líka frá afskiptum sínum af pólitík, þegar hann ungur maður stóð á Austurvelli 30. mars 1949 og breyttist úr heimdellingi í sósíalista.
Kristinn R. Ólafsson í Madrid rýnir í Orrustuna um Spán eftir Anthony Beevor, en þar er sögð hin dramatíska saga spænska lýðveldisins og borgarastyrjaldarinnar hræðilegu á Spáni 1936-1939.
Runólfur Ágústsson og Huldar Breiðfjörð segja frá ferðabókum sínum, Runólfur fór alla leið til Tasmaníu á slóðir Jörundar hundadagakonungs en Huldar til frænda okkar í Færeyjum.
Bragi er á sínum stað, en Kolbrún og Páll fjalla um nýjar bækur eftir Vilborgu Davíðsdóttur, Ólaf Hauk Símonarson og rit Jóns Karls Helgasonar um Ragnar í Smára.