Dagatal Eimskips þótti einhver mesti kostagripur á íslenskum heimilum áratugum saman. Og svo var það enn þegar ég var að alast upp. Dagatalið var skreytt glæsilegum litprentuðum myndum af íslenskri náttúru – ég man eftir að hafa barnungur horft hugfanginn á þessar myndir á heimili afa míns og ömmu þangað sem það barst fyrir hver áramót.
Þetta var meðan Eimskipafélagið var enn „óskabarn þjóðarinnar“.
Síðar komu Hörður Sigurgestsson og félagar og keyptu upp hlutabréf í Eimskipafélaginu sem voru til út um allt land. Þeir létu eins og þeir væru að gera landsmönnum greiða með því að losa þá við þetta pappírsrusl – keyptu fyrir slikk – og eignuðust þannig stærri hlut í félaginu.
Þetta voru mjög fínir menn.
Síðar kom Björgólfur Guðmundsson og setti allt á hausinn.
En dagatalið kemur ennþá út. Það er hægt að nálgast það á skrifstofum Eimskips – sem nú er reyndar komið með aðra kennitölu – ókeypis.