Benedikt Sigurðarson á Akureyri tekur flokksbróður sinn félagsmálaráðherra til bæna vegna einstrengingsháttar hans í skuldamálum heimilanna. Benedikt spyr beinlínis hvort Árni Páll þurfi að segja af sér vegna rangfærslna sinna og bendir á að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn geri beinlínis ráð fyrir því að skuldaleiðrétting sé óhjákvæmileg – og að svigrúmið til þessa sé sagt 600 milljarðar.
Þvert ofan í orð félagsmálaráðherra og annarra ráðherra í ríkisstjórninni.
Benedikt skrifar:
„Greiðsluaðlögun – – og nú síðast “greiðslujöfnun” eru algerlega misheppnaðar aðgerðir; – og sl. föstudag komu fram fulltrúar m.a frá ASÍ og Íbúðalánasjóði og fleirum fram í fjölmiðlum og réðu fólki frá því að nýta sér greiðslujöfnun verðtryggðra lána – af því hún væri “ekki lausn” . . . .
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur afhjúpað nauðsyn þess að fara í umfangsmiklar skuldaleiðréttingar hjá fjölskyldunum í landinu. AGS tekur með því undir þau sjónarmið sem Hagsmunasamtök Heimilanna voru stofnuð utan um. Við sem höfum haldið þessum sjónarmiðum á lofti – og rökstutt með sanngirnisrökum og jafnræðisrökum – jafnt sem efnahagslegum rökum – fáum allt í einu óvæntan stuðning frá AGS.
Árni Páll Árnason verður að stíga til baka; biðjast afsökunar á einstrengingin sínum – og kalla aðila til efnislegs samráðs um skjóta og skilvirka “endurskipulagningu verðtryggðra skulda heimilanna” – – ef félagsmálaráðherrann er ekki reiðubúinn til að bregðast við þessarri afhjúpun AGS – þá á hann líklega ekki annarra kosta völ en segja af sér ráðherradómi.“
Marinó Gunnar Njálsson fjallar einnig um mat AGS á bloggi sínu.