Gauti B. Eggertsson fjallar um þau rök að Icesave ábyrgðir eigi ekki við þegar verði „kerfishrun“. Hann segir að þau geti varla átt við, því tryggingasjóður innlánseigenda hafi hvort eð er verið tómur og ekki getað tryggt eitt eða neitt – og eins spilar setning neyðarlagana inn í þetta, eins og lesa má í greininni sem er í heild sinni hér:
— — —
„Tryggingarsjóður virðist í raun ekki hafa getað staðið við nánast neins konar þroti banka af stærðargráðu Glitnis, Kaupþings, eða Landsbanka. Hann hefði kannski getað ráðið við Sparisjóð Norður-Múlasýslu? Ef það hefði ekki verið kerfishrun, hefði það aðeins breytt því að í staðinn fyrir að Tryggingasjóður Innistæðueigenda ætti örfáa milljarða uppí icesave, hefði sjóðurinn í staðinn átt örfá milljarða plús örfáa milljarða viðbót, það er, eftir sem áður örfáa milljarða uppí um tröllvaxna 700 milljarða kröfu.
Með öðrum orðum: Mér sýnist að vandinn vegna icesave hafi aldrei verið kerfihrun á Íslandi. Vandinn var að íslensk stórnvöld, Seðlabanki og Fjármálaeftirlitið, létu Landsbankann (sem virðist í raun hafa verið orðinn tæknilega gjaldþrota) safna hundruðum milljarða innlána árin 2007 og 2008 frá grandalausum almenningi í Bretlandi og Hollandi í krafti auglýsingar um íslenska ‘innlánstryggingu’ með gæðastimpli frá ESB (auglýst — nóta bene — bak og fyrir í margverðlaunaðri auglýsingaherferð og predikuð af talsmönnum ríkisstjórnar Íslands í bresku útvarpi, blöðum og sjónvarpi). Þessar tryggingar virðist enginn hafa ætlað að borga ef illa færi, enda engar sérstakar ráðstafanir gerðar til slíks. Þessu fé sem safnaðist var svo eytt í að halda spilaborginni uppi örlítið lengur, og í mjög áhættusamar fjárfestingar, í þeirri von að þetta myndi ‘bara reddast’.
En vandinn var alltaf þessi: Það voru litlar eignir til að bakka þetta upp hjá Landsbankanum, og því er ákaflega erfitt að borga kröfuhöfum neitt til baka. Það var skylda stjórnvalda að hafa eftirlit með að einhverjar eignir lægju að baki ævintýrinu, amk nægar til að tryggja þær lágmarks skuldbindingar sem ríkið hafði kvittað undir þegar það tók tilskipum ESB í gildi, ef allt færi á versta veg. Þetta var ekki gert.“