The Lost World of Communism er þriggja mynda þáttaröð frá BBC. Ég hef verið að horfa á hana í norska sjónvarpinu, fyrsti þátturinn fjallar um Austur-Þýskaland, annar þátturinn um Tékkóslóvakíu og sá þriðji um Rúmeníu.
Þetta eru stórmerkilegir þættir, myndefnið er einstakt og þarna er rætt við fólk sem upplifði kommúnismann með ýmsum hætti – í þættinum um Tékkó sem sýndur var í kvöld á NRK1 var meðal annars talað við Vaclav Havel, alþýðukonu sem bjó á samyrkjubúi, dægurlagasöngkonu sem lenti í ónáð, konu sem sá um að skipuleggja risastórar leikfimisýningar sem voru kommúnistaleiðtogum svo kærar og við dóttur Milada Horakova, stjórnmálakonu sem var tekin af lífi eftir sýndarréttarhöld 1950.
Það sem sker í augu er hræsnin og lygin sem einkenndi þessi samfélög – sem ekki var hægt að halda saman nema með lögreglu- og hervaldi.
Hér er brot úr þættinum sem fjallar um Rúmeníu Ceausescus – ég er ekki búinn að sjá hann, en þetta myndskeið lýsir því þegar miðborg Búkarest var rifin til að rýma fyrir fáránlegri monthöll og breiðgötu:
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=ZWtqFXxwNQc]