Tveir talsmenn upplýsingavefjarins WikiLeaks voru í viðtali í Silfrinu í dag. Þeir tala á ráðstefnu sem haldin er í Háskólanum í Reykjavík á þriðjudag, á vegum Félags um stafrænt frelsi.
Þeir segjast ætla að dvelja hér í viku og eru tilbúnir að taka við upplýsingum frá fólki hér.
WikiLeaks komst í umræðuna hér þegar vefurinn birti upplýsingar úr lánabók Kaupþings eins og frægt var. Þá var sett lögbann á að RÚV birti þessar upplýsingar og vefnum var hótað málsókn.
Í þættinum í dag sögðust talsmennirnir vera með nýtt og eldfimt efni frá Íslandi sem þeir væru að sannreyna, en myndi sennilega birtast seinna í vikunni.
Annars er þetta merkilegur vefur sem storkar þeim sem vilja hefta upplýsingafrelsi hvarvetna í heiminum, ekki aðeins ríkisstjórnum, heldur líka bönkum og stórfyrirtækjum. Stundum er þetta upp á líf og dauða – þeir sem leka upplýsingunum geta verið í lífshættu ef upp um þá kemst, og því er trúnaður við heimildarmenn lykilatriði í þessari starfsemi, líkt og kom fram í viðtalinu í dag.