Torfi Hjartarson sendi þessa grein um σεισάχθεια (seisakþeia) en það eru lög sem aþenski stjórnmálamaðurinn og lagasmiðurinn Sólon setti til að létta byrðum af skuldurum:
— — —
„Í dag er fjöldi réttlausra skuldara svo af fullur reiði gagnvart ósnertanlegum sjálftökumönnum að landið rambar á barmi byltingar. Óheft frelsi hefur gert fámennum hópi manna kleyft að ná undir sig ógrynni eigna í krafti aðstöðu sinnar og færni þannig að stórskaði hefur hlotist af. Það hefur sýnt sig að frelsi og jafnrétti eru keppinautar en ekki samherjar. Landsstjórnin er í höndum kuldalegra húsbænda og handgengnir dómarar úrskurða þeim í vil. Lánardrottnar fá ekki innheimtar skuldir sínar þannig að þeim þykir horfa til vandræða.”
Þessi stutta lýsing segir frá ástandinu í Aþenu, vöggu menningar og lýðræðis, fyrir 2600 árum en gæti eins verið lýsing á ástandinu á Íslandi í dag. En hvernig brugðust Forn-Grikkir lítt menntaðir á okkar mælikvarða við ójafnvægi og misrétti sem var á góðri leið með að tortíma samfélaginu?
Þeir gerðu það með því að létta á einu bretti allri skuldabyrðinni af borgurunum hvort sem um var að ræða skuldir við ríkissjóð eða einkaaðila. Lánardrottnar voru að sjálfsögðu mjög ósáttir við þessar ráðstafanir en viðurkenndu að nokkrum árum liðnum að þær hefðu komið í veg fyrir algjöra upplausn samfélagsins.
En hvernig bregðast ný stjórnvöld sem vilja láta kenna sig við jöfnuð og velferð við byltingarástandi á Íslandi, einu mest menntaða samfélagi Vesturlanda?
Stjórnvöld hafna óskum borgaranna um að fá að borga eingöngu þær skuldir sem þeir stofnuðu til á sanngjörnu verðlagi. Þess í stað krefjast stjórnvöld þess að borgararnir aðlagi sig að og axli risavaxnar skuldabyrðar vegna heimila sinna og fjárglæfra sjálftökumanna sem stofnað var til með vitund og vilja fyrri stjórnvalda. Þar að auki gefa stjórnvöld lánardrottnum nær óhindrað sjálfdæmi á innheimtu skuldanna.
Á Íslandi virðast stjórnvöld ætla að slíta í sundur friðinn!
Torfi Hjartarson