Stundum er eins og Íslendingar missi alla tilfinningu fyrir stöðu sinni í heiminum. Þeir ímynda sér að allir séu sífellt að hugsa um Ísland.
Það er til dæmis merkilegt að lesa frétt frá fundi Heimssýnarfólks í Noregi þar sem það segir að Evrópusambandið óttist að Íslendingar segi nei við aðild.
Nú held ég að Íslendingar séu nokkuð velkomnir í ESB, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Sem er alls ekki víst að íslenska þjóðin samþykki.
Þetta ferli, umsóknarprógramið, er nokkuð staðlað – það tekur sinn tíma – engan þarf að undra að aðildarviðræður hefjist ekki fyrr en næsta sumar. Um það má fræðast í þessari grein á Wikipedia.
Það eru fleiri lönd á biðlistanum en Ísland: Króatía, Makedónía, Serbía, Albanía, Kosovo, Svartfjallaland, jú og Tyrkland.
Og í leiðinni er í gangi endurskoðun á fiskveiðistjórninni, landbúnaðarkerfinu, fyrir utan þær breytingar á stjórnkerfi ESB sem felast í Lissabonsáttmálanum.
Óttinn er kannski ekki svo mikill eftir allt – það er frekar líklegt að viðhorfið sé í anda þess sem ég heyrði í Frakklandi síðastliðið vor:
Þið komið ef þið viljið koma, en ef þið viljið það ekki, þá það…
Tant pis.