Fólkið var farið að yfirgefa Dubai löngu fyrir hrunið sem nú er að verða að veruleika.
Farandverkamennirnir fóru fyrstir, einfaldlega vegna þess að atvinnan minnkaði. Svo fór efnaða fólkið; sá sem skuldar í Dubai getur átt á hættu að lenda í skuldafangelsi. Og moldríka fólkið fór líka; húsin sem það keypti á tilbúnu eyjunum fyrir utan borgina voru nefnilega ekkert annað en það – hús á tilbúnum eyjum. Íþróttastjörnurnar sem yfirvöld í Dubai höfðu laðað þangað eru hættar að koma. Það er engin náttúra, engin menning, engin saga, bara merkjavara. Kannski ágætt í uppsveiflu, en leiðinlegt til lengdar.
Hinn tilbúni draumaveruleiki er að snúast í martröð. Það er útilokað að selja allar íbúðirnar í háhýsunum sem hafa sprottið upp innan um mesta frumskóg byggingakrana í heiminum. Leikurinn hefur samt haldið áfram; alveg þangað til núna hefur verið látið eins og sé markaður fyrir þetta.
Ekki bætir úr skák að klóak flæðir um fjörurnar í Dubai; skolpveiturnar í furstadæminu hafa ekki undan að dæla óhroðanum burt og um sumar strendurnar hefur verið sagt að það sé alveg eins hægt að synda í klósetti.