Sigrún Davíðsdóttir skrifar um útrásarmenn sem hafa flutt af landi brott, en telur ekki að þeir muni geta komist hjá opinberum ákærum með þeim hætti. Pistilinn má lesa í heild sinni hér:
— — —
„En hvar eru þá helstu persónur og leikendur viðskiptalífsins sem var? Halldór J. Kristjánsson býr í Kanada. Hann er ráðgjafi hjá kanadísku fjármálafyrirtæki sem sérhæfir sig í sms-lánum og þjónustu við þá sem ekki eiga kost á að leita til venjulegra viðskiptabanka. Í fréttatilkynningu fyrirtækisins er Halldór kynntur sem fyrrum forstjóri í evrópskum banka. Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson eru báðir skráðir til heimilis á Íslandi, einnig Björgólfur Guðmundsson, Sigurjón Þ. Árnason og Pálmi Haraldsson. Bjarni Ármannsson bjó um hríð í Noregi en er nú fluttur aftur til Íslands. Björgólfur Thor Björgólfsson hefur búið í London um árabil og enn skráður í Bretlandi, sama með Ármann Þorvaldsson og Sigurð Einarsson.
Samkvæmt þjóðskrá er Ólafur Ólafsson búsettur í Bretlandi, samkvæmt heimildum Spegilsins býr Ólafur nú í Lausanne í Sviss. Í reikningum fjárfestingarfélags Ólafs hjá bresku fyrirtækjaskránni frá í vor er Ólafur þó skráður til heimilis í Borgarnesi. Lárus Welding er enn skráður til heimilis á Íslandi en mun nýfluttur til London. Magnús Ármann býr nú suður af London. Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir búa báðir í London. Hreiðar Már Sigurðsson rekur nú ráðgjafafyrirtæki í Lúxemborg. Jón Þorsteinn Jónsson fyrrum stjórnarformaður Byrs er nýlega fluttur til London. Magnús Þorsteinsson flutti lögheimili frá Íslandi til Rússlands í vor.“