Prófessor Robert Z. Aliber kom til Íslands meðan allt lék í lyndi og spáði kreppu. Hann byggði það á byggingakrönunum sem hann sá alls staðar. Sagði að þeir væru alltof margir.
Margir blésu á þetta, töluðu um að þetta væri ekkert að marka þennan karl.
En Aliber er gamall og reyndur karl og vissi hvað hann söng. Hann sagði að íslensku bankarnir væru dauðadæmdir löngu fyrir hrun, þeir hefðu breyst í vogunarsjóði.
Annar staður á jörðinni þar sem byggingakranar hafa gnæft við loft er Dubai. Þar hefur ekki verið neitt lát á vexti undanfarin ár. Þeir hafa meira að segja byggt sér Babelsturn, hæsta hús í heimi sem má hækka ef einhver annar ætlar að byggja hærra.
Nú er sagt að ævintýrið þar sé úti og hagkerfið að hruni komið. Eyjaklasarnir sem voru byggðir undan ströndum Dubai fyrir ríka fólkið eru hvorki fallegir né skemmtilegir og borgin sjálf hálf óhugnanleg.
Og þá er spurning hvaða áhrif það hefur á veiklað fjármálakerfi heimsins ef Dubai hrynur?