Það virðist vera hafið mikið iPhone verðstríð hjá fyrirtækjum útrásarvíkinga, Símanum og Nova. iPhone er greinilega jólagjöfin í ár – eða þannig.
Stríðið verður þó varla mjög blóðugt ef borin eru saman verð á þessum símum hér og annars staðar í heiminum. Tilboðsverð breyta ekki miklu þar um.
Síminn býður iPhone 3G 8GB á 124.900 krónur, en iPhone 3GS 16GB á 159.900.
Samkvæmt heimasíðu Apple í Bandaríkjunum kosta þessir símar á bilinu frá 199 dollurum til 599 dollara í Bandaríkjunum, allt eftir því hvað notendur geta fengið góð tilboð.
Á vef Amazon í Bretlandi má finna iPhone 3GS 16GB á 419,95 sterlingspund, en í verslun Apple í London eru símarnir á bilinu 342,50 til 440,40 sterlingspund.
Símatilboð eru oft býsna flókin, líklega vísvitandi, en leiti maður hjá símafélögunum bresku má sjálfsagt finna hagstæðari möguleika á að eignast svona síma.