Gunnar Smárason skrifar um fargjöld með Icelandair. Hann heldur því fram að nú séu farþegar að borga fyrir yfirgengilega skuldsetningu fyrirtækisins. Þeir séu beinlínis mjólkaðir.
Ég verð að játa að mér þykir dálítið vænt um Icelandair, ekki eigendur félagsins, heldur starfsfólkið. Ég er búinn að fljúga fram og til baka með Icelandair/Flugleiðum síðan ég var ungur maður, hef aldrei mætt nema ljúfmennsku frá starfsfólki – fyrir utan öryggistilfinninguna sem maður fær þegar maður stígur um borð í flugvél frá Icelandair.
Snemma í haust keypti ég flugmiða með Icelandair – fyrir mig og fjölskylduna. Á skrifstofu Icelandair mætti ég sama góða viðmótinu og endranær, sölukonana var mjög snjöll að finna bestu leiðina fyrir okkur, en sagði svo stundarhátt:
„Guð, er þetta orðið svona dýrt hjá okkur!?“