Þá er búið að blása af samgöngumiðstöðina svokallaða í Vatnsmýri.
Þessi framkvæmd var hvort eð er alltaf vitleysa. Hún var alltof stór, það er óvissa um framtíð flugvallarins, það er ekkert vit í að beina rútuferðum eða strætó inn á þetta svæði. Samgöngumiðstöðin var alltaf dulnefni fyrir útblásna flugstöð.
Nú vill Kristján Möller minnka þetta niður í flugstöð sem á þá væntanlega að rísa þar sem gamla flugstöðin stendur núna. Þetta vill hann gera þrátt fyrir kreppu og þrátt fyrir að flugumferð hafi minnkað mikið eftir að harðna fór á dalnum og eftir að stórframkvæmdum á Austurlandi lauk.
Raunar virðist ráðherrann leggja aðaláherslu á að troða bara einhverju þarna niður, eða eins og stendur í frétt á Vísi. Hann segist vera opinn fyrir hverju sem er:
„Ég er opinn fyrir hverju sem er og við erum til í að byggja samgöngumiðstöð um leið og við fáum leyfi til,“ segir hann. Enn standi til að reisa samgöngumiðstöð, en ekki bara flugstöð. Spurður í hvaða húsi aðstaðan fyrir rútur eigi að vera, segir hann það óleyst mál sem fari eftir því hvaða leyfi fáist frá borginni og á hvorri lóðinni verði byggt. „Þetta verður alltaf samgöngumiðstöð, en misjafnt hvernig hún verður útfærð.“