Um árið skrifaði ég nokkrar greinar um hnattræna hlýnun. Ég setti fram ákveðnar efasemdir, aðallega um mynd Als Gore sem nefnist An Inconvenient Truth.
Ástæðan var sú að myndin er full af ónákvæmni sem er ástæðulaust að umbera. Tilgangurinn helgar ekki meðalið í þessu efni fremur en öðrum.
Einhverjir kölluðu mig „afneitunarsinna“ vegna þessa; það var greinilegt að ég hætti mér út á mjög viðkvæmt svið.
Það er samt ekki rétt.
Meirihluti vísindamanna sem um efnið fjalla segja að jörðin sé að hitna vegna aukningar gróðurhúsalofttegunda. Ég tl langlíklegast að þeir hafi á réttu að standa.
Nú er svolítið eins og pendúllinn sé að slást í hina áttina í hinni almennu umræðu. Sumir ráða sér ekki af fögnuði yfir því að vísindamennirnir sem spá hlýnun hafi kannski rangt fyrir sér.
Það er alveg jafn ástæðulaust að taka mark á öfgunum þegar þær fara í þá áttina og hina mjög svo áróðurskenndu framsetningu Gores. Heilbrigðar efasemdir eru yfirleitt bestar í vísindum, ekki trúarrugl.