Ég fæ ekki séð að bókatitlarnir þessi jól séu neitt færri en áður, þrátt fyrir kreppu. Það er margt jákvætt við þetta, þetta er vottur um öflugt menningarlíf – það koma ekki út svona margar bækur í Cluj eða Cardiff.
En að er mjög sérstakt hversu mikið kemur út á afar stuttu tímabili, bara örfáum vikum í nóvember. Þetta er satt að segja of mikið á of stuttum tíma. Ég kvarta vegna þess að ég er með bókmenntaþátt í sjónvarpi og vil reyna að gera hlutina eins vel og ég get. Ég veit að aðrir sem fjalla um bækur í fjölmiðlum hafa svipaða upplifun.
Máski telja útgefendur að sé best að gera þetta svona, en ýmis verk myndu njóta sín miklu betur á öðrum tíma ársins, þau myndu vekja meiri athygli, fengju meiri umfjöllun.
Þá á ég ekki endilega við Arnald Indriðason, Jón Kalman eða Steinunni Sig, heldur bækur sem eru ekkert sérlega söluvænlegar á bókamarkaði, bækur fræðilegs eðlis, listaverkabækur, ljóðabækur, skáldverk eftir lítt þekkta höfunda sem eiga varla möguleika á að keppa um alvöru sölu.
Hættan er sú að bækurnar séu líkt og andvana þegar kemur fram í janúar. Allir vilja fá umfjöllun og krítík í desember, fyrir aðalsöluna um jólin, og verða sárir og móðgaðir ef það tekst ekki. Höfundar og útgefendur kæra yfirleitt sig ekki um umfjöllun á útmánuðum.
Hvað er þá eftir þegar jólaflóðið er afstaðið? Þá eru margir titlar þegar komnir á útsölu. Sumir eignast reyndar nýtt líf þegar þeir koma út i kiljuformi á vorin.
En almennt séð held ég að færi betur á að dreifa útgáfunni á aðeins lengra tímabil. Er eitthvað að því að setja aðeins meiri kraft í þetta strax síðla í september og fyrripartinn í október?