Elizabeth Söderström, hin mikla sænska óperusöngkona sem nú er látin, kom fram í sjónvarpsþætti sem Hrafn Gunnlaugsson gerði árið 1995. Þar fékk Hrafn ýmsa þekkta listamenn til að flytja lög og ljóð eftir sænska vísnaskáldið Bellman – Söderström brá á leik í þættinum með sjálfum Vladimir Ashkenazy.
Mér þótti þetta svo skemmtilegur þáttur á sínum tíma að horfði á hann nokkrum sinnum á myndbandi – en er löngu búinn að glata spólunni. Aðrir sem komu þarna fram voru meðal annarra Donovan, The Dubliners, lettnesk hljómsveit sem nefnist Perkons og Egill Ólafsson.
Sjálfum fannst mér magnaðasta atriðið í þættinum þegar drengjakór frá Litháen söng hina frægu vögguvísu Bellmans, sem hann orti til sonar síns Carls, í minningu Elis, annars sonar sem dó barnungur. Þetta tók Hrafn upp á krosshólnum fræga í Siauliai í Litháen.
Ég verð alltaf dálítið meyr þegar ég heyri þetta angurværa lag, sérstaklega myndina sem skáldið dregur upp af litla drengnum sem horfir á andlit sitt í streymandi vatninu.
Ljóðið er svona, í þýðingu Gunnars Guttormssonar:
Sofðu Kalli, sofðu rótt
þú seinna færð að vaka
lííta marga myrka nótt
og mein sem okkur þjaka.
Jörðin býr oss örlög íll
oft í blóma lífsins vill
gröfin toll sinn taka.
Einu sinni lækur leið
um laut á grænu engi
lítill hnokki hjá þar beið
og horfði í vatnsins strengi.
Það var eins og báran blá
bærði mynd hans til og frá.
Svo gekk lengi, lengi.
Öll við skulum að því gá
að árin framhjá líða
svo einn daginn við föllum frá
og fjalirnar oss bíða.
Þar um Kalla þenkja ber
þegar litlu blómin sér
sá um völlinn víða.
Alla gleður, gæskurinn,
að gæfu fékkstu léða.
Kannski á morgun, Kalli minn
við klippum hest og sleða.
Hús úr spilum – lúllum – lú
– líka byggjum ég og þú
vísu vil ég kveða.
Mamma glöð vill gefa þér
úr gulli skóna mjúka
og ef piltur prúður er,
mun pabbi dós upp ljúka.
Besta molann bara fá
börn sem leggjast vangann á
koddakrílið strjúka.
Hér er útgáfa af laginu sem ég fann á YouTube. Annars hafa ýmsir flutt það, til dæmis Bubbi Morthens og svo er til útsetning á því eftir sjálfan Beethoven:
[youtube=http://www.youtube.com/watch?v=1YlxAhkvv9k&feature=PlayList&p=63776F9F84DA01C3&playnext=1&playnext_from=PL&index=2]