Íhaldsflokkurinn undir stjórn Davids Cameron virðist ætla að komast til valda í Bretlandi næsta vor, ekki vegna þess að hann sé svo yfirmáta vinsæll hjá kjósendum, heldur vegna þess að valkosturinn, Verkamannaflokkurinn, virðist vera svo vondur.
Þetta eru ekki svo ólíkar kringumstæður og þegar núverandi ríkisstjórn Íslands komst til valda.
En kosningasigrar sem vinnast með þessum hætti eru skammlífir. Óánægjufylgi er fljótt að hverfa. Kringumstæðurnar eru allt aðrar en þegar Tony Blair vann sinn fræga kosningasigur 1997; þá var mikil eftirspurn eftir honum og flokki hans – Blair þótti ungur og ferskur og miklar vonir voru bundnar við hann.
Hann naut þess reyndar líka að hann tók við í efnahagslegri uppsveiflu, sem magnaðist mjög á valdatíma hans.
Það eru hins vegar engar sérstakar líkur á að efnahagsvandræði Breta verði úr sögunni næsta vor þegar Cameron tekur nær áreiðanlega við.
Það eru líka ýmis önnur vandamál sem hann þarf að glíma við.
Árið 2007 skrifaði Cameron undir yfirlýsingu og birti í The Sun um að hann myndi halda þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabon sáttmála Evrópusambandsins.
Þá var hann 20 prósentustigum á eftir Verkamannaflokknum í skoðanakönnunum og sáttmálinn virtist býsna fjarlægur.
En nú er verið að ryðja síðustu hindruninni fyrir endanlegri samþykkt hans úr vegi, Klaus, forseti Tékklands, mun varla tefja hann mikið lengur.
Og Cameron er að draga í land með þjóðaratkvæðagreiðsluna sem hann lofaði. Það sem er líka merkilegt er að Murdoch-snepillinn, The Sun, sem búinn er að taka Cameron að sér, virðist ekki ætla að minna hann á loforðið – eins og ætti að vera auðvelt og sjálfsagt fyrir blaðið að gera.
Peter Oborne skrifar í Guardian og segir að þetta séu auðvitað svik – pólitískt hentugleikabandalag milli stjórnmálamanns og blaðsins– sem öðrum fremur mótar almenningsálit á Bretlandi – sem minni á verstu spunatilburði Blairtímans.
Sjálfur er Oborne merkilegur náungi, höfundur bóka um hræsni og lygar í stjórnmálum og sem heitir The Rise of Political Lying.