Sigrún Davíðsdóttir fjallaði mikið um deCode á fyrstu árum fyrirtækisins og má segja að hún sé sérfróð um það. Hún flutti pistil um deCode í útvarpið í gær þar sem hún furðaði sig meðal annars á því að Landsbankinn skyldi setja 1,5 milljarða í félagið þegar það skilaði botnlausu tapi. Pistilinn má lesa í heild sinni hér en niðurlag hans er svona:
„Íslensk erfðagreining hefur laðað til sín gott starfsfólk sem hefur unnið áhugavert starf. Líftæknifyrirtæki koma og fara – það er ekkert nýtt. Menn prófa hugmyndir, sumar ganga aðrar ekki. Hið sérstæða er allt það sem hefur gengið á í kringum deCode. Salan á gráa svæðinu með aðkomu félaga í Lúxemborg og Panama reyndist aðalæfing fyrir það sem síðar kom. Stjórnmálamenn lögðu sig í líma. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar reyndi að koma stoðunum undir ógóða viðskiptahugmynd með einkaleyfi sem var heldur ekki sérlega vitleg hugmynd. Alþingi samþykkti ríkisábyrgð. Stjórnendur deCode reyndu ýmislegt – en engin þeirra hugmynda gekk upp út frá viðskiptalegu sjónarmiði. Starfsemin stóð ekki undir sér. Fyrirgreiðsla ríkisbankans í janúar sýnir gríðarlegt langlundargeð. En allt kom fyrir ekki: viðskiptahugmyndin deCode gekk ekki upp – og því fór sem fór.“