Varaformenn fjögurra stjórnmálaflokka – fjórflokksins – rita bréf og segja að Íslendingar eigi að snúa bökum saman og horfa fram veginn.
Það er sjálfsagt að horfa til framtíðar. Og margir eru að því. Svo eru aðrir sem vilja vera með í uppbyggingunni en komast ekki að, ég veit til dæmis um merkilega erlenda frumkvöðla sem lögðu mikið á sig til að pæla í framtíð Íslands en fengu dræmar undirtektir hjá stjórnvöldum.
En í þinginu rífast menn eins og hundar um hvert einasta mál. Stjórnmálamennirnir ganga svo sannarlega ekki á undan með góðu fordæmi. Þeir snúa ekki bökum saman, þótt þeir ætlist nú til að aðrir geri það.
Við bíðum nú eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þegar hún kemur fram snýst umræðan um sekt og sakleysi – öðruvísi getur það ekki verið.
Og þar beinast sjónir ekki síst að hlut hrunflokkanna, Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingar.