Það er alveg rétt hjá Styrmi Gunnarssyni að vel kemur til greina að stefna einhverjum af ráðherrum ríkisstjórnar Geirs Haarde fyrir landsdóm vegna aðgerða – eða aðgerðaleysis.
Þorvaldur Gylfason talaði um það á tíma hrunsins að aðgerðaleysi stjórnarinnar væri eitt stærsta hneyksli Íslandssögunnar.
Annar sem hefur talað fyrir þessu er Grímur Atlason, sveitastjóri í Dalabyggð, hann hefur skrifað um málið á bloggsíðu sína og skýrir það mun ítarlegar en Styrmir. Slík ákæra yrði að líta dagsins ljós innan þriggja ára frá því brotið er framið segir Grímur.
Í leiðinni mætti athuga með að stefna embættismönnum sem sannarlega urðu uppvísir að stórfelldum afglöpum, svo sem forstjóra Fjármálaeftirlitsins, þáverandi stjórnarformanni þess og Seðlabankastjórum.
Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mun hugsanlega varða veginn í þessu, ef hún verður ekki hvítþvottur.
Margir óttast að þingmenn ætli að reyna að komast í að ritskoða skýrsluna með því að skipa nefnd sem á að ákveða hvernig eigi að fjalla um hana.
Mér sýnist það vera misskilningur. Það er nauðsynlegt að þingið móti sér eitthvert vinnulag í þessu máli, annars er hætt við að allt lendi í glundroða þar sem hver reynir að spinna út frá skýrslunni og túlka skýrsluna á sinn hátt. Það gætu orðið heldur óskemmtilegar aðfarir.
Hér er engin hefð fyrir því að þingið takist á við mál af þessu tagi og verklagsreglur hljóta að vera nauðsynlegar. Til dæmis hlýtur að þurfa að ákveða eftir birtingu skýrslunnar hver verða næstu skref í málinu – ef þá einhver.