Ef ég ætti að lýsa Baldri Guðlaugssyni þá kemur orðið kommissar fyrst upp í hugann. Það er orð sem var notað um erindreka ákveðinna stjórnmálaflokka í austurvegi sem sáu um alls kyns utanumhald.
Svona handlangarar eru til í öllum stjórnmálaflokkum. Þeir bjóða sig ekki fram sjálfir, heldur gegna alls kyns störfum á vegum flokka, setjast í nefndir og ráð, fá vegtyllur og geta orðið mjög valdamiklir. Hagnast gjarnan vel á þessu. En hvar sem þeir fara eru flokkshagsmunirnir þeim efst í huga.
Sumir kommissarar starfa alla tíð bak við tjöldin og fáir kannast við þá, aðrir verða býsna þekktir. Kommarnir höfðu í gamla daga sinn Inga R. Helgason, Framsókn átti Kristin Finnbogason kraftaverkamann og síðar Jón Sveinsson – í Sjálfstæðisflokknum var Hreinn Loftsson um tíma í svona hlutverki, áður en hann féll í ónáð.
Baldur hefur eytt mestallri starfsævi sinni í störf í kringum Sjálfstæðisflokkinn. Hann var svo tekinn úr kommisarshlutverkinu og dubbaður upp í að verða ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu. Það var á tíma Geirs Haarde. Þetta var þrælpólitísk ráðning. Baldur hafði ekki starfað áður í embættismannakerfinu og ekki hafði hann heldur hagfræðimenntun eins og maður skyldi ætla að væri æskilegt í þessu djobbi.