Í Kiljunni í kvöld verður rætt við Ólaf Ormsson rithöfund sem hefur sent frá sér bókina Byltingarmenn og bóhemar. Bókin er framhald af Ævintýraþorpinu sem kom út fyrir tveimur árum, en þar sagði Ólafur frá unglingsárum sínum í bítlabænum Keflavík. Í nýju bókinni er Ólafur kominn til Reykjavíkur og tekur þátt í starfi Æskulýðsfylkingarinnar með mörgum þekktum borgurum af yngri kynslóð, hann gerist sanntrúaður sósíalisti, en um leið bóhem sem eyðir löngum stundum á barnum á Naustinu með listamönnum og lausafólki.
Ólafur gerðist seinna hallur undir Sjálfstæðisflokkinn, en segir frá því í viðtalinu að hann sé aftur orðinn sósíalisti.
Meðfram viðtalinu sýnum við einstakt myndefni úr safni Sjónvarpsins frá mótmælaaðgerðum áranna fyrir 1970.
Við ræðum við finnska rithöfundinn Tapio Koivukari sem talar einstaklega góða íslensku. Tapio starfaði eitt sinn sem smíðakennari á Ísafirði og slarkaði líka í verbúðum, en er nú einn vinsælasti rithöfundur á finnska tungu, auk þess að vera mikilvirkur þýðandi íslenskra bóka. Tapio er höfundur bókarinnar Yfir hafið, í steininn, sem er nýkomin út á íslensku í þýðingu Sigurðar Karlssonar.
Í leiðinni fjöllum við um þýðingu Sigurðar á annarri finnskri bók, hinu klassíska verki Óþekkti hermaðurinn eftir Väinö Linna, en það gerist í vetrarstríðinu við Sovétríkin.
Páll og Kolbrún fjalla um ævisögu Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson, Karlsvagninn eftir Kristínu Marju Baldursdóttir og Dóttur mæðra minna eftir Sindra Freysson.
En Bragi ræðir um bókamerki.