Hér í athugasemdadálki var nefnt fyrr í dag bolludagsmálið mikla, þegar Davíð Oddsson bar það upp á Jón Ásgeir Jóhannesson að hann hefði reynt að múta sér.
Hreinn Loftsson átti að hafa borið mútuboðið til Davíðs, á fundi sem þeir áttu af einhverjum ástæðum í London.
Hreinn sagði að þetta hefði verið tómur misskilningur.
Það er í raun eitt af hneykslismálum þessarar aldar að þetta skyldi aldrei vera rannsakað til hlítar. Auðvitað átti lögreglan að fara beinustu leið til forsætisráðherrans, taka af honum skýrslu og hefja rannsókn.
Það var ekki gert. Og umræðan um þetta mútuboð varð alveg sérlega ankanaleg. Menn virtust ekki skilja að þegar forsætisráðherra þjóðar setur fram svona fullyrðingu er það háalvarlegt mál.
Það var hins vegar ekki höndlað þannig – og það styrkir gruninn um að þetta hafi bara verið smjörklípa.
Ef rannsókn hefði leitt í ljós að Jón Ásgeir bauð mútur, þá hefði náttúrlega átt að draga hann fyrir dóm, en ef hún hefði leitt í ljós að forsætisráðherrann var að segja ósatt, ja, þá hefði hann náttúrlega átt að segja af sér.