Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir skrifar merkilega grein um kunningjastjórnmál sem má lesa í heild sinni hér:
„Pólitískum vinaráðningum fylgja oftast væntingar um hollustu og hlýðni. Stundum er um ákveðinn vinargreiða ræða. Það breytir því þó ekki að hvort heldur sem er, þá myndast í kjölfarið samband milli þess sem ræður og þess sem er ráðinn, samband sem líkja má við „skjólstæðingssamband“, þar sem sá sem tekur ákvörðun um ráðningu er orðinn „verndari“ þess sem er ráðinn. Þetta fyrirbæri kallast á ensku „clientelism“ og verndarinn „patron“. Við það ráðningarsamband sem skapast við pólitískar ráðningar verða til ákveðnar aðstæður þar sem sá sem ræður telur sig geta með nokkurri vissu sagt fyrir um hvernig sá sem er ráðinn hagar ákvörðunum sínum. Þetta þykir mörgum stjórnmálamönnum mikill kostur þar sem opinber stjórnsýsla snýst um það að undirbúa ákvarðanir og marka stefnu í sameiginlegum málum almennings. Við slíkar ákvarðanir mætast oft ólíkir hagsmunir almennings og einkaaðila.“