Þetta er alveg laukrétt hjá Andrési Jónssyni, það er enginn munur á Sjálfstæðisflokknum og flokkunum sem mynduðu R-listann hvað varðar vonda stefnu í skipulagsmálum.
Og það sem meira er:
Þessi stefna hefur verið gegnumgangandi í nágrannabæjunum, alveg burtséð frá því hver er við stjórnvölinn.
Hjá sjálfstæðismönnum í Kópavogi og Reykjanesbæ, hjá krötum í Hafnarfirði.
Alls staðar greip um sig æði þannig að byggt var miklu meira en þörf var á. Heilu hverfin spruttu upp, án þess að spurt væri hverjir ættu að búa þar. Það blossaði upp keppni milli bæjarfélaganna um hverjir gætu reist flestar nýbyggingar.
Það verður áhugavert að sjá hvaða hugmyndir flokkarnir bjóða upp á í skipulagsmálum í kosningunum í vor – en því skal spáð að það verði talsvert frábrugðið stefnunni sem hefur verið framfylgt hingað til.
Þetta verður þó ekki af neinum hugsjónaástæðum, heldur vegna þess að gamla stefnan hefur beðið skipbrot.