Það held ég að eftirfarandi texti sé fyndnasta blogg vikunnar. Hann birtist á vefsíðu Björns Bjarnasonar:
„Ég fékk bréf frá vinstri-grænum bloggara í dag, sem sagði mér að hætta að skrifa hér á síðuna. Ég væri á eftirlaunum og ætti að ekki að láta í mér heyra opinberlega. Ég svaraði, að ég mundi ekki fara að þessum ráðum. Tilmælin um, að ég haldi mér saman vegna aldurs og fyrri starfa, sýna, að hinn vinstri græni bloggari vill, að skoðanir mínar á mönnum og málefnum hætti að birtast. Í Sovétríkjunum voru menn settir á geðveikrahæli til að þagga niður í þeim. Steingrímur J. Sigfússon boðaði netlögreglu á sínum tíma. Ætli henni verði ekki beitt gegn mér?“
Semsagt:
Vinstri grænn bloggari sem ekki er nafngreindur segir Birni að hætta að skrifa af því hann er á eftirlaunum.
Steingrímur J. Sigfússon talaði einhvern tíma um netlögreglu. Hann – eða einhver – ætlar líklega að beita henni gegn Birni.
Nema að hann verði lokaður inni á geðveikrahæli eins og í Sovétríkjunum.
Á engilsaxnesku myndi þetta vera kallað logic by leaps and bounds.
Ég veit ekki hvað það kallast á íslensku.
Rökleiðsla í stórum stökkum, eða einfaldlega að vaða úr einu í annað?
Annars gekk ég um dimma götu í gærkvöldi. Þrír ungir menn hrópuðu á eftir mér:
„Kommúnisti!“
Hvað ætli það boði?