Kristín Marja Baldursdóttir verður gestur í Kiljunni á morgun. Nýútkomin skáldsaga eftir hana nefnist Karlsvagninn, það er samtímasaga sem fjallar um uppeldi, mótun persónunnar og nokkrar kynslóðir kvenna.
Við förum í Reykholt, á slóðir Snorra Sturlusonar, og fræðumst um þær undir leiðsögn Óskars Guðmundssonar, höfundar nýrrar ævisögu Snorra – þessa einstaka afburðamanns, rithöfundar, stjórnmálamanns, klækjarefs og auðkýfings.
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir frá uppáhaldsbókum sínum.
Kolbrún og Páll fjalla um Svörtuloft, nýja spennusögu eftir Arnald Indriðason, Yfir hafið og í steininn eftir finnska Íslandsvininn Tapio Koivukari og nýja unglingasögu eftir Jónínu Leósdóttur.
En Bragi talar um íslenska nasista og útgáfu þeirra á ýmsum smáritum.