Sigurður T. Garðarsson er höfundur þessarar greinar.
— — —
Árið 2007 þegar ákveðið var að leyfa veiði 100 þús. tonna af ýsu og 130 þús. tonna af þorski fannst mér stjórnvöld vera gengin af göflunum. Mér var fyrirmunað að skilja hvernig hægt var að minnka veiðar þorsks ár frá ári, en auka veiðar ýsu, þegar alkunna er að ýsa er fyrst og fremst meðafli þorsks. Ég átti von á að einhverjir stjórnmálamenn, útvegsmenn eða sjávarútvegs sérfræðingar úr háskólunum kæmu vitrænni umræðu um þessi mistök af stað, því til þess að ná allri þessari ýsu, þurfti annaðkvort að veiða margfalt leyfilegt magn af þorski, eða hitt gerðist að ýsuveiðin yrði mesti vonbrigða valdur ársins í sjávarútvegi.
Á vormánuðum 2008 fór ég að hugsa hvort ég væri með þetta allt rangt í kollinum, því engin umræða spannst um þessa ráðagerð stjórnvalda, sem tók gildi 1. sept. 2007.
Til að skoða þessa kenningu mína betur fór ég inn á heimasíður Hafró og einnig Hagstofunnar, en á þessum vefsvæðum fæst annarsvegar gott yfirlit yfir veiðislóðir þessara tegunda, rökfærslur bæði fyrir minnkun og vexti þessara fiskistofna og aðrar rannsókna niðurstöður um mögulegt veiðiþol fiskistofnanna við landið og hinsvegar sögu landaðs sjávarafla undanfarna áratugi en mig lagnaði að vita hvort það væru söguleg fordæmi fyrir þessum hlutföllum í veiðum þorsks og ýsu.
Tölur um landaðan ýsuafla eru til allt frá stríðslokum og þorsks nokkuð lengra aftur. Mesta hlutfall ýsuafla fyrir kvótalög var árið 1962, eða 20%, en að meðaltali frá 1945-1984 var hlutfall ýsu 12% af samanlögðum vegnum afla þessara tveggja tegunda (sjá línurit um % hlutfall ýsu í afla ýsu og þorsks).
Á þessum tíma var ýsan jafnan minna virði en þorskur og tilhneiging sjómanna var rík að vigta ýsu sem þorsk öll þessi ár. Því má gera ráð fyrir að ýsan hafi verið eitthvað hærra hlutfall en skýrslur segja til þar til kvótalög voru sett 1984.
Á sama hátt og tilhneiginging hjá sjómönnum var að landa ýsu sem þorski fyrr á árum, varð sá viðsnúningur með kvótakerfinu að þetta snérist við og nú vildu sjómenn vigta þorsk sem einhverja aðra fisktegund. En hvað um það við skulum halda okkur við ýsuna og þorskinn, en ef borin er saman úthlutun aflaheimilda og síðan landaðs afla á ýsu og þorski, þá sýnir það sig að aðeins á stuttu árabili, þegar úthlutaður ýsukvóti var innan við 40 þús tonn (1999-2002), þá var veginn ýsuafli umfram útgefin kvóta. Öll ár þar sem ýsukvóti er hærri en 40 þús. tonn, hefu ýsuafli verið lægri en kvótaúthlutun, þó með óskýrðum undantekningu frá árinu 2003. Hér er línurit sem sýnir þetta glögglega.
Á sama hátt hefur landaður þorskafli öll árin utan eitt (2000) verið meiri en úthlutaður kvóti. Þessar staðreyndir segja okkur að öll árin frá kvótasettningu hefur verið pressa á sjómönnum að draga úr vigtun þorskafla, en ýsan hefur oftast haft borð fyrir báru og þess vegna getað verið felubúningur þorsks (Coddock kalla þeir það í Hull og Grimsby, einhver snéri því á ylhýra sem “ýskur”)
Línuritið sýnir einnig vel hvernig ýsuhlutfallið í útgefnum kvóta frá 1993 til 1996 fer vel yfir 20% hlutdeild og hvernig landaður afli fyrir sömu ár hoppar í takt, þó hann nái ekki því munstri sem verið hefur frá 2003, en frá því ári hefur ýsukvótinn og vegin ýsuafli haldist saman eins og síams tvíburar.
Til að átta sig á samhengisleysi veiða ýsu og þorsk undanfarin ár er hér línurit, sem nær frá 1945 til 2006 og sýnir árlegt aflamagn þorsk og ýsu í þessi 60 ár. Það sem stingur í stúf í þessu línuriti er að um 2002 fara ýsan og þorskurinn að nálgast hvert annað hröðum skrefum í aflamagni og ef ýsan í grafinu hér á undan er skoðuð byrjar hún á sama tíma að verða nánast samsíða, útgefnum kvóta og lönduðu magni, eins og fyrr er bent á.
Það þarf engan sérfræðing til að sjá til hvers það leiðir þegar leyfilegt kvótamagn ýsu og þorsks er tekið úr sögulegu samhengi og sett í ómögulega stöðu fyrir sjómanninn. Hann þarf núorðið að sortéra aflann eftir forskrift stjórnmálamanna og finna leið til að minnka hlutfall þorsks en auka hlutfall ýsu. Án samhengis við veiðireynslu til tuga ára.
Næsta skrá er um % hlutfall ýsu í lönduðum afla frá 1992 til 2007 og samhliða er sýnt úthlutað kvótahlutfall.
Eins og sést er aðeins í tvö ár (1998 og 2001) þar sem aflahlutfall ýsu er í meðallagi, þ.e. 14%. Í átta ár af þessu 16 ára tímabili er hlutfall ýsu yfir 20%. Það er fordæmalaust í sögunni. Við getum látið hlutfallið milli 15 og 20% liggja milli hluta enda ekki óhugsandi að hlutfall ýsu í samanlögðum afla ýsu og þorsks geti verið á því bili. Það gerðist sex sinnum á tímabilinu frá 1945 til 1984, sem er sá tími þegar sjómenn vildu frekar kalla ýsuna þorsk, en þorskinn ýsu. Athyglisverðast í þessari töflu er samt sem áður sú staðreynd að í níu ár af þeim sextán sem taflan nær yfir leggja stjórnvöld til að hlutfall ýsu í veiðinni verði yfir 20%. Ef að veiðireynslan frá ´84 segir okkur eitthvað að þá er það að þegar veiðihlutfall ýsu er komið yfir 20% að þá hefur þeim reynst erfitt að fylla kvótann. Undantekning á þessu eru reyndar árin frá 2003, en síðan þá hefur nákvæmni veiðiheimilda og vegins afla verið fáránlega nákvæm og gjörsamlega úr samhengi við reynslu undanfarinna áratuga.
Ég skoðaði einnig þessar tölur frá mánuði til mánaðar þessi 16 ár til að reyna að átta mig á hvort einhverjir mánuðir skæru sig úr.
Það sem maður sér helst úr þessari töflu t.d. er að janúar og febrúar eru lélegir ýsuveiði mánuðir og að í apríl og maí veiðist mest af ýsu. Þetta eru sögulegar staðreyndir sem ekki koma á óvart. Það sem hinsvegar kemur á óvart eru tölur um veiði þorsks og ýsu, sem sýnt er í næsta línuriti.
Lítum á tonnafjölda hvors um sig ýsu og þorsks. Ef þessi þróun sem þarna sést er ekki manngerð, að þá er náttúran farin að spila laglega með okkur. Í janúar og febrúar árið 2000 er hlutfall ýsu 12%. Árið 2003 var ýsukvótinn aukinn verulega, eða um 14 þúsund tonn. Þorskkvótinn var á sama tíma minnkaður um 11 þúsund tonn. Ég ætla að leyfa mér að efast um að þorskveiðin í þessum mánuðum hafi verið eitthvað afleit, en að ýsuveiðin væri sérlega góð eða tæpur þriðjungur af veiðinni og að veiðin hafi síðan batnað næstu ár er með ólíkindum. Líklegast er að gera ráð fyrir, með tilliti til sögulegs samhengis, að veiði þorsks þessa tvo mánuði hafi verið rúm 40 þús tonn, en ekki 35 þús. Þetta er mismunur upp á 5 þúsund tonn á tveim mánuðum. Má vera að þetta sé ýkt. Og svo getur verið að þorskurinn hafi að hluta verið “ýskur” og þá lækka 40 þús. tonnin um tvö tonn fyrir hvert eitt sem hér reiknast. Öfgarnar eru hinsvegar fáránlegastar árið 2008. Það er árið sem Hafró og Fiskifélagið segja að brottkastið af ýsu og þorski hafi verið um 3 þúsund tonn.
Í janúar og febrúar 2008 er okkur sagt í opinberum gögnum að hlutfall ýsu hafi verið tæp 50% af veiðinni. Eins og fyrr gerum við ráð fyrir að sjómaðurinn vilji fullnýta ýsukvótann sinn, en á því fiskveiðiári máttu sjómenn veiða aðeins 130 þús. tonn af þorski en 100 þús. tonn af ýsu. Samkvæmt vigtarskýrslum, þá komu þeir með tæplega 21 þús. tonn af ýsu og rúm 25 þús. tonn af þorski að landi þessa tvo mánuði 2008. Eins og sést á töflunni hér að ofan er meðal veiðihlutfall síðasliðin 16 ár á ýsu í janúar og febrúar 18%. Ef að líkum lætur hafa þeir því veitt 95 þúsund tonn af þorski þessa tvo mánuði en skráð eru aðeins 25,697 tonn. Það vantar tæp 68 þús. tonn til að dæmið gangi upp í sögulegu samhengi. Eins og fyrr er getið þá má vera að stæðstur hluti ýsunnar hafi verið “ýskur” og þá er það ekki alveg jafn slæmt þjóðhagslega og ef um brottkast væri að ræða. Þessi vitleysa er auðvitað ekki boðleg. Þó þessi reikningur væri ekki réttur nema sem nemur 10% af þessum tölum að þá er það samt hneisa að enginn af þeim, sem um þetta véla láti ástandið viðgangast.
Í lokin langar mig að koma með eitt línurit enn, svona til að sýna að þessi vinnubrögð með kvótann eru ekki tilviljun, heldur líklega skipulögð kerfisbundin ráðstöfun.
Í byrjun kvótaársins 2007-2008 var augljóst að ekki mætti tefja neitt að tryggja veiði ýsukvótans á árinu. Þannig voru aflatölur strax í september svo, að ýsa var rétt innan við 50% af þorskveiðinni. Línuritið skýrir sig sjálft., en ef við leikum okkur að mögulegu brottkasti þessu tengdu að þá má léttilega reikna með að brottkast þorsks á þessum fyrstu sex mánuðum kvótaársins hafi verið allt að 235 þús tonn. Hvert tonn af þorski sem mögulega var landað sem ýsu, ef svo var raunin, lagar dæmið tvöfalt.
Ég legg mál mitt í dóm. Nýleg skýrsla sem kom frá Hafró og Fiskifélaginu um mögulegt brottkast árið 2008 er háðung. Öfgarnar eru augljósar og það er ekki hægt að framkvæma fiskveiðikerfið eins og pólitíkin leggur fram. Rökin hér eru tölfræðileg og erfitt að meta óvissuþætti í tölunum. Þó má sjá að ósamræmið er mikið við sögulegu staðreyndirnar. Framkvæmd kvótalaganna virðist vera komin úr öllu samhengi við veiðisögu og skynsemi. Leyfður kvóti fyrir 2007-2008, 130 þús. tonn af þorski og 100 þús. tonn af ýsu, er ekki möguleg niðurstaða við Íslandsstrendur.
Svo er það hin hliðin á þessu máli, sem er sú siðferðilega. Ástandið í fiskveiðunum á Íslandi minnir í mörgu á ástandið sem var í austantjaldslöndum komúnista. Þar sem þögnin var andlag löghlýðni. Komi í veiðarfærin eitthvað umfram útgefinn kvóta, þá verða sjómenn lögbrjótar ef þeir koma með aflann í land, einnig ef þeir henda honum fyrir borð og ef einhver þeirra minnist einu orði á hvort gert var, getur sá hinn sami ekki aðeins verið útskúfaður frá vinnu hjá útvegsmönnum, heldur einnig lögsóttur af yfirvöldum fyrir að hafa tekið þátt í athæfinu. Málshátturinn þungur er þegjandi róður á ágætlega við um ástandið. Megnið af fólkinu sem vinnur við þetta á ekki annan kost en að þegja.
2. nóvember 2009
Sigurður T. Garðarsson