Steingrímur J. telur sig ekki geta komið nálægt skuldaafskrift fyrirtækja, eða það má lesa í Morgunblaðinu í dag:
“Skuldaúrvinnsla einstakra fyrirtækja er í höndum bankanna og þeir verða að vinna samkvæmt samræmdum og vönduðum reglum í þeim efnum og eiga ekki að fara í manngreinarálit þar, þegar kemur að því að meta hvernig hagsmunum bankans og þess vegna íslensks efnahagslífs er best borgið og hvernig hægt er að lágmarka tjón í sambandi við skuldug fyrirtæki og skuldaúrvinnslu þeirra. Ég blanda mér ekki inn í einstök mál í þeim efnum. Ég hvorki má það né get. En það væri að æra óstöðugan og beinlínis rangt, ef ráðherra færi að blanda sér inn í einstök mál. Ég trúi því ekki að það séu menn að biðja um.“
Og Bjarni Benediktsson telur að skynsamlegt sé að gefa eigendum Haga tækifæri til að halda félaginu:
“Ég hef engar forsendur til að meta verðin í þessu máli Haga. En ég held að það sé skynsamlegt sem menn hafa verið að leggja upp með, að gefa eigendum félaganna tækifæri. Ef eigendum félaganna eru ekki gefin tækifæri til að koma inn með nýtt fjármagn, þá munu menn alltaf lenda á afar gráu svæði. Þetta verður að vera viðskiptaleg ákvörðun og ég held að við værum komin aftur út á hættulegar brautir ef við stjórnmálamenn ætlum að segja: Það eru þessir menn sem mega vera með og hinir ekki.“
Lilja Mósesdóttir lýsti í Silfrinu á sunnudag eftir eignasýslunni sem átti að stofna eftir hugmyndum Svíans Mats Josefsson. Hvar skyldi hún vera? Hugmyndin var að mál af þessu tagi fengju almenna gegnsækja meðferð, en ekki væri verið að pukrast með þau inni í bönkunum, oft af gömlum félögum þeirra sem eiga í hlut.